Erlent

Þrír fundust látnir í norskum þjóðgarði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá Femundsmarka þjóðgarðinum í Noregi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá Femundsmarka þjóðgarðinum í Noregi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Tveir danskir karlmenn og sex ára sonur annars þeirra fundust látnir í Femundsmarka þjóðgarðinum í Noregi í gærkvöld.

Víðtæk leit hafði staðið yfir í um sólarhring, eftir að ekkert hafði spurst til þeirra í nokkurn tíma.

Þeir fundust skammt frá kanóa á Rogen-vatni sem þeir höfðu tekið á leigu fyrir um tíu dögum síðan og áttu að skila á miðvikudag. Það gerðu þeir hins vegar ekki og var því ákveðið að hefja leit.

Ekki liggur fyrir hvernig andlát þeirra bar að. Talið er að bátnum hafi hvolft, en þeir voru allir í björgunarvestum.

Vatnið er þó einungis 12 gráðu heitt og lofthiti var um fimm gráður ,sem gæti hafa leitt til andláts þeirra. Lík þeirra verða færð til krufningar síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×