Erlent

Áætlun um lokun Guantanamo í vinnslu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bandaríkjaforseti ætlar sér að standa við gefin loforð og loka fangelsinu við Guantanamo-flóa.
Bandaríkjaforseti ætlar sér að standa við gefin loforð og loka fangelsinu við Guantanamo-flóa. nordicphotos/afp
Ríkisstjórn Bandaríkjanna leggur nú lokahönd á áætlun sína um lokun fangelsisins við Guantanamo-flóa á Kúbu. Frá því greindi talsmaður forsetaembættisins, Josh Earnest, í gær.

Fangelsið er hámarksöryggisfangelsi Bandaríkjahers sem hefur verið starfrækt frá 2002.

„Leyfið mér að staðfesta fyrir ykkur að ríkisstjórnin er að leggja lokahönd á gerð áætlunar um lokun fangelsisins við Guantanamo-flóa og ætlar að leggja þá áætlun fyrir fulltrúadeild þingsins,“ sagði Earnest.

„Þjóðaröryggisfulltrúar okkar hafa unnið að gerð áætlunarinnar í þó nokkurn tíma. Verkefnið hefur verið í forgangi hjá forsetanum,“ sagði hann enn fremur, en Obama lofaði lokun fangelsisins í aðdraganda forsetakosninganna 2008.

„Forsetinn trúir því að þjóðaröryggi okkar aukist til muna við lokun fangelsisins.“

Fyrsta skref áætlunarinnar verður að rétta yfir þeim sem eru í haldi í fangelsinu og færa í önnur fangelsi. Næsta skref verður að framselja þá fanga, sem ekki er hægt að rétta yfir, til annarra ríkja. Síðasta skrefið verður að flytja allra hættulegustu fangana í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum. Alls eru nú 116 fangar í haldi í fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×