Rauðsokkar minnast Vilborgar Harðardóttur, blaðamanns og frumkvöðuls í kvennahreyfingunni, með málþingi í sal Þjóðminjasafnsins á laugardaginn kemur, 3. október, kl. 13–15.
Á málþinginu talar Steinunn Marteinsdóttir leirlistarmaður um vinkonuna Villu, og Hildur Hákonardóttir lýsir Vilborgu sem baráttufélaga í Rauðsokkahreyfingunni, en Hildur er m.a. höfundur bókarinnar Ég þori, get og vil, sem byggist á framlagi Vilborgar til kvennabaráttunnar og kvennaverkfallsins 1975.
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, fjallar um konur og verkalýðsbaráttu, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi alþingismaður og umhverfisráðherra, ræðir um konur og umhverfi: „Að komast til meðvitundar.“ Reykjavíkurdætur leika listir sínar, þar á meðal Þuríður Blær Jóhannsdóttir, dótturdóttir Vilborgar. Málþingsstjóri er Guðrún Hallgrímsdóttir, matvælaverkfræðingur og einn stofnenda Rauðsokkahreyfingarinnar.
Málþingið er haldið í tengslum við ljósmyndasýninguna Blaðamaður með myndavél á Veggnum á jarðhæð Þjóðminjasafnshússins, en þar er sýnt úrval blaðaljósmynda Vilborgar frá sjöunda og áttunda áratugnum. Nú í haust eru áttatíu ár liðin frá fæðingu Vilborgar (1935–2002).

