Erlent

Vopnahlé hafið stuttu eftir loftárásir

Bjarki Ármannsson skrifar
Bardagar í Jemen hafa nú kostað hundruð almennra borgara lífið frá því í mars.
Bardagar í Jemen hafa nú kostað hundruð almennra borgara lífið frá því í mars. Vísir/AFP
Fimm daga vopnahlé hófst í Jemen í kvöld, aðeins örfáum klukkustundum eftir að Sádar og bandamenn þeirra gerðu loftárásir gegn uppreisnarmönnum þar í landi. Bardagar í Jemen hafa nú kostað hundruð almennra borgara lífið frá því í mars.

Áfram var barist á jörðu niðri þar til um hálftíma eftir að vopnahléð hófst, að því er fréttaveitan AP greinir frá. Öryggisyfirvöld í Jemen segja að uppreisnarmennirnir hafi þá gert atlögu að borginni Dhale í suðurhluta landsins. Engar fregnir af loftárásum hafa þó borist frá því að vopnahléð skall á.

Vopnahléð mun reyna á samningavilja bæði ríkisstjórnar Jemen og Hútanna, uppreisnarmanna úr röðum Sjíta-múslima. Báðir hóparnir hafa sagt að harkalega verði brugðist við hverskonar rofi á vopnahlénu.

Hlénu er ætlað að lina þjáningar almennra borgara í Jemen, fátækasta Arabaríkinu. Flutningaskip biðu við strendur landsins í dag, tilbúin að veita ýmis konar mannúðaraðstoð sem sárlega er þörf á eftir átökin.

Ismail Ould Cheikh Ahmed, nýr sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna, mætti til Sanaa, höfuðborgar landsins seint í kvöld eftir að vopnahléð hófst. Hann sagði blaðamönnum í borginni að til stæði að ræða við báða deiluaðila og að sjá til þess að vopnahléð sé ekki rofið.


Tengdar fréttir

Forseti Jemen kominn til Sádi-Arabíu

Loftárásir, undir forystu Sádi-Araba voru á ný gerðar á Jemen í nótt en markmið þeirra er að brjóta uppreisnarmenn Húta á bak aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×