Fótbolti

Gattuso: Leikmenn AC Milan í dag virða ekki reglurnar eins og við gerðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gennaro Gattuso var hluti af sigursælu liði AC Milan.
Gennaro Gattuso var hluti af sigursælu liði AC Milan. vísir/getty
Gennaro Gattuso, fyrrverandi Ítalíu- og Evrópumeistari með AC Milan, er afar óánægður með hegðun núverandi leikmanna liðsins.

Hann segir liðið vanta alvöru karlmenn og hegðunarvandamál séu í klefanum.

AC Milan hefur átt slaka leiktíð undir stjórn Pippo Inzaghi, fyrrverandi samherja Gattuso. Liðið er í tíunda sæti deildarinnar og verður líklega ekki í Evrópukeppni næsta vetur.

„Milan er eins og friðarsamtökin Unesco á meðan lið eins og Manchester City og PSG eiga sér enga sögu. Aftur á móti er engin framtíðarstefna í gangi hjá liðinu núna,“ segir Gattuso í viðtali við Gazetta TV.

„Það er mikilvægt að segja stuðningsmönnunum satt. Það er mikið talað um ungu leikmennina hjá félaginu en svo eru þeir allir lánaðir eða seldir.“

„Þegar ég spilaði fyrir Milan giltu reglur í búningsklefanum sem við fórum eftir. Þannig er það ekki hjá Milan-liðinu í dag,“ segir Gattuso.

Einn mesti vandræðagemsinn í Milan-liðinu í dag er Jérémy Ménez sem er jafnframt markahæsti leikmaður þess með 16 mörk. Hann hefur verið gagnrýndur mikið fyrir hegðun sína.

„Ménez er búinn að skora mikið af mörkum en hann er enginn leiðtogi. Hann hefur ekki gert nóg,“ segir Gennaro Gattuso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×