Engar stórvægilegar breytingar er að merkja á virkni í kringum Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að rétt fyrir klukkan sex í morgun hafi rofað til á svæðinu og sést vel til gosbjarmans á vefmyndavélum. Þar séu engar breytingar að sjá.
„Jarðskjálftavirknin við Bárðarbunguöskjuna síðustu daga hefur verið hviðukennd, þá eykst skjálftavirknin tímabundið og dettur svo niður á milli. Um þrjátíu skjálftar hafa mælst þar síðasta sólarhringinn, sá stærsti varð í gærkvöld kl. 18:16, 4,1 að stærð.“
Á annan tug skjálfta af stærðinni 0,5 til 1,3 hafa mælst í kvikuganginum. Í gærkvöld hófst svo smáskjálftahrina við Herðubreiðartögl.
Innlent