Lífið

Systkini opna sýningu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Óskar, Fanney og Sigurður eru mikið handverskfólk og opna sýninguna Fimir fingur í Gerðubergi á morgun.
Óskar, Fanney og Sigurður eru mikið handverskfólk og opna sýninguna Fimir fingur í Gerðubergi á morgun. mynd/Aðsend
Systkinin Óskar Henning Áldal, Fanney og Sigurður Valgarðsbörn opna á morgun sýninguna Fimir fingur í Boganum í Gerðubergi.

Á sýningunni má berja augum fjölbreytta listmuni sem þau systkinin hafa búið til í gegnum árin en þetta er þeirra fyrsta sameiginlega sýning.

„Þetta er sú fyrsta og eina, við gerðum þetta bara svona að gamni okkar og þetta kom einhvern veginn til af sjálfu sér,“ segir Óskar Henning glaður í bragði.

Hnífur og laufabrauðsjárn eftir Sigurð.Mynd/KristínÞóra
Systkinin eru ættuð úr Svarfaðardal og segir Óskar mikið af listhneigðu fólki upprunnið í dalnum og þau eigi því ekki langt að sækja áhugann á listsköpun og handverki.



Ein af fjölmörgum kríum sem Óskar hefur smíðað úr þorskhausum.Mynd/KristínÞóra
„Fanney systir mín sýnir myndverk og útskurð, sjálfur hef ég í áraraðir smíðað kríur úr þorskhausbeinum og það eru að minnsta kosti fjörutíu kríur, ýmist sitjandi á steinum eða fljúgandi á sýningunni,“ segir Óskar og bætir við: „Sigurður bróðir minn er mikill hnífasmiður og einnig smíðar hann laufabrauðsjárn og kleinujárn, bæði á hvaltennur, og síðan hefur hann smíðað laufabrauðsjárn úr kýrhorni.“

Greinilegt er að systkinunum er margt til lista lagt og ekki úr vegi að efna til sýningar á þeim listmunum sem þau hafa skapað í gegnum tíðina.

Fanney sýnir myndverk og útskurð á sýningunni.Mynd/KristínÞóra
Óskar segir óneitanlega gaman að því að opna sýningu ástamt systkinum sínum og hefur ánægju af handverkinu. „Það er líka gaman að því í ellinni, þegar maður er orðinn fullorðinn, að hafa nóg að starfa.“

Sýningin verður opnuð á morgun klukkan 17.00 í Boganum í Gerðubergi og stendur til 27. september næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×