Menning

Íslenskur fiðlusnillingur vann til alþjóðlegra verðlauna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rannveig Marta er einn efnilegasti tónlistarmaður Íslands. Hún verður tvítug í haust.
Rannveig Marta er einn efnilegasti tónlistarmaður Íslands. Hún verður tvítug í haust. Vísir/Stefán
Fiðluleikarinn Rannveig Marta Sarc vann til fyrstu verðlauna á TEMSIG, tónlistarkeppni ungs fólks í Slóveníu sem er nýlokið. Þá hlaut hún einnig fyrstu verðlaun fyrir flutning á skylduverki og slóvnesku tónverki. Hún greinir frá þessu á Instagram síðu sinni og er eðlilega í skýjunum.

Rannveig Marta, sem á íslenska móður og slóvenskan föður, hóf nám við Juilliard haustið 2014 eftir að hafa slegið í gegn í umsóknarferlinu þar sem hún flakkaði á milli skóla vestan hafs í von um inngöngu og skólastyrki. Skemmst frá því að segja að hún komst inn í alla skólana og gat valið á milli þeirra.

„Þetta var alveg það skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni,“ sagði Rannveig Marta við það tilefni í samtali við Fréttablaðið. Svo fór að hún valdi Juilliard í New York.

Meðal verðlauna sem Rannveig Marta hlaut fyrir árangur sinn er að flytja einleik með Fílharmóníusveit Slóveníu á næsta ári. Mun hún flytja 1. fiðlukonsert Prokofiev. Hér að neðan má heyra Rannveigu Mörtu flytja fyrsta kaflann úr konsertnum.

Rannveig hefur spilað á fiðlu síðan hún var fjögurra ára en Guðný Guðmundsdóttir, fyrrverandi konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var kennarinn hennar síðustu sex árin hér á landi áður en hún hélt utan í framhaldsnám.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×