Lífið

Sýndi töfra fyrir Depeche Mode

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ingó Geirdal
Ingó Geirdal mynd/krissý
Töframaðurinn Ingó Geirdal heldur töfrasýningu á laugardaginn í Salnum í Kópavogi.

„Ég hef töfrað í ein þrjátíu ár og er sennilega sá töframaður á Íslandi sem hefur starfað lengst á Íslandi,“ segir Ingó, en auk þess að vera töframaður er hann einnig gítarleikari hljómsveitarinnar Dimmu. „Ég hef oft tvinnað þetta tvennt saman; tónlistina og töfrabrögðin.“

Ingó byrjaði að töfra þegar hann var tíu ára gamall og lærði af Baldri Brjánssyni. Sýningin er ekki sú sama og þá enda hefur hún tekið breytingum í gegnum tíðina.

„Síðustu ár hefur borið meira á ýmsum áhættuatriðum. Meðal annars má nefna að núna þræði ég flugbeitt rakvélarblöð upp á pinna og nota til þess munninn á mér.“

Ingó segist einnig vera að fikra sig inn á slóð hugsanalesturs sem David Blaine og Derren Brown eru þekktir fyrir.

Oft er sagt að töframenn upplýsi aldrei um leyndardóminn bak við töfrabragðið en það getur tæplega staðist þar sem oft birtast nýir og nýir töframenn. „Þetta er mjög lokað bræðralag og við treystum ekki hverjum sem er. Það tók Baldur til að mynda langan tíma að fara að treysta mér og kenna mér,“ segir Ingó.

Eitt sinn töfraði Ingó baksviðs fyrir meðlimi Depeche Mode, en Martin Gore, gítarleikari sveitarinnar, er mikill aðdáandi töfrabragða. „Rótari sveitarinnar hafði séð mig koma fram í sjónvarpsþætti í Svíþjóð og þegar þeir léku þar þá hafði hann uppi á mér og bauð mér baksviðs. Það var afar áhugavert,“ segir Ingó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×