Lífið

Hreppti hönnunarverðlaunin

Guðrún Ansnes skrifar
Brynjar tók á móti verðlaununum á þriðjudagskvöldið og er hæstánægður með heiðurinn.
Brynjar tók á móti verðlaununum á þriðjudagskvöldið og er hæstánægður með heiðurinn. Mynd/NiciJost
Brynjar Sigurðarson hlaut svissnesku hönnunarverðlaunin, Swiss Design Awards, í flokki vöru- og hlutahönnunar á þriðjudagskvöldið og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þau virtu verðlaun.

„Ég er ennþá að taka þetta allt saman inn, þetta er rosalega mikill heiður,“ segir Brynjar nokkuð hrærður, þó hann hafi fengið upplýsingar um heiðurinn nokkrum dögum áður. „Ég mátti ekki segja neinum frá þessu fyrr en á mánudaginn, á sjálfan afmælisdaginn minn, svo þetta var mjög skemmtilegt.“

Verðlaunin eru mjög virt í Sviss en Brynjar skaut fjölmörgum ungum og hæfileikaríkum hönnuðum ref fyrir rass, en alls þrír voru verðlaunaðir í flokki Brynjars.

Auk heiðursins hlýtur Brynjar peningaverðlaun sem koma sér gríðarlega vel að hans sögn. „Mig langar að fara að framleiða hluti sjálfur, en ekki í slagtogi við fyrirtæki. Það er töluvert hark svo þessi verðlaun koma sér afar vel.“

Líkt og Fréttablaðið hefur sagt frá er Brynjar á leið til Íslands í lok mánaðar þar sem hann mun í slagtogi við kærustu sína og Frosta Gnarr, vinna að verkefninu Góðir vinir.

„Nú verður maður bara að halda sér niðri á jörðinni og halda áfram,“segir Brynjar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×