Menning

Hef alltaf haft gaman af tilraunakraftinum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Upp úr því að konur fengu kosningarétt fóru þær aðeins að rétta úr sér því smám saman fengu þær meira val í lífinu,“ segir Ásta.
Upp úr því að konur fengu kosningarétt fóru þær aðeins að rétta úr sér því smám saman fengu þær meira val í lífinu,“ segir Ásta. Vísir/GVA
„Verkin í einni stofunni í Iðnó eru gerð í kringum rokkinn hennar ömmu og þá hugmynd að konur sátu á rúmstokkunum með bogin bök og spunnu á rokka langtímum saman. En upp úr því að þær fengu kosningarétt fóru þær aðeins að rétta úr sér því smám saman fengu þær meira val í lífinu og hófu að spinna öðruvísi þræði.“

Þannig lýsir Ásta Ólafsdóttir myndlistarkona inntaki nýjustu verkanna á sýningunni í Iðnó um þessar mundir.

Hún er líka með sýningu í Galleríi Gesti en það er taska sem dr. Magnús Gestsson hefur alltaf með sér og opnar þar sem hann stingur niður fæti.

Óhlutbundnar vatnslita- og gvassmyndir eru meðal verka Ástu á sýningunum, hún kveðst hafa mikla ánægju af að mála með gvassi sem er tegund af vatnslitum. „Það er eitthvað sem ég fæst við meðfram öðru í myndlistinni og mér finnst auðvelt að bregða fyrir mig á ferðalögum. Svo eru líka olíumálverk í einni stofunni,“ lýsir hún.





Ásta vinnur í ýmsa miðla og var meðal fyrstu Íslendinga til að gera myndbandsverk.

„Ég var svo heppin að vera við nám í Jan van Eyck akademíunni í Hollandi frá 1981 til 1984 þegar þar var mikil vídeóvakning. Ég hef samt ekki einbeitt mér að þeirri tækni í seinni tíð,“ útskýrir hún og segir að sér hafi fundist vídeólistin meira spennandi meðan fáir fengust við hana.

„Ég hef alltaf haft gaman af tilraunakraftinum og að leita nýrra möguleika með nýrri tækni eða nýju efnisvali. Það er í mínu eðli,“ segir hún.

„Þegar ég er fyllilega búin að ná tökum á einhverju finnst mér ég geta farið að framleiða og þá hætti ég í því. Þarf alltaf að vera í einhverri baráttu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×