Fjárfestingargeta sjóðanna þriggja nemur um 11,5 milljörðum króna og þeim fjármunum verður varið til fjárfestinga á næstu þremur til fimm árum.
Sjóðirnir sem um ræðir eru Eyr sprotar, SA framtak og Frumtak II og bætast þeir við þá sjóði sem fyrir eru.

„Þetta er vonandi vísir að því að fjárfestar hafi trú á því að þetta svið geti verið áhugavert. Ég er tiltölulega vongóður um að þessi þróun verði viðvarandi. Þetta er í raun í fyrsta skipti frá landnámi þar sem staðan er orðin sú að það er samkeppni, ekki bara um fjármagnið, heldur á milli sjóðanna um fjárfestingar.“
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak Innovit, segir að nýju sjóðirnir breyti landslaginu fyrir frumkvöðla á Íslandi. Áður hafi Tækniþróunarsjóður borið mesta þungann af fjárfestingum á sprotastiginu (e. seed stage). Það sé ekkert í líkingu við þær upphæðir sem núna eru komnar inn í spilið.

Salóme segir að þetta sé árangur markvissrar uppbyggingar frumkvöðlastarfs á Íslandi. Fjárfestar séu farnir að veita þessum geira meiri athygli, sem og stjórnvöld. Þar spili inn í velgengni fyrirtækja eins og Meniga, Plain Vanilla og Green Cloud, svo dæmi séu nefnd.
„Þróunin hefur verið rosalega hröð síðustu ár. Svo hröð að ekki hefur náðst að halda utan um tölfræðileg gögn í kringum þetta allt saman. Það þarf að ramma þessa starfsgrein betur inn. En klókir fjárfestar vilja auðvitað vera með í næsta stóra dæminu og það eru mikil tækifæri fyrir frumkvöðla á Íslandi.“

Sjóðirnir sem um ræðir einbeita sér að fjárfestingum á fyrsta stigi fyrirtækja, sprotastiginu. Einar Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur hjá Arion banka, segir að á þessu stigi sé fjárfesting oftar en ekki bundin við f-in þrjú, upp á enska tungu; friends, family and fools (vini, fjölskyldu og kjána).
„Þetta eru einu sjóðirnir sem eru að fjárfesta á hugmyndastigi. Markmiðið er að einkafjárfestarnir, sem oft er talað um sem viðskiptaengla, taki við þessum fjárfestingum með sjóðunum.“
Einar Gunnar bendir á að sjóðirnir þurfi að ávaxta sitt pund. Að þeim standi ólíkir hluthafar sem geri kröfuum að þeir sem stýri sjóðunum standi sig vel. Sjóðstjóranna sé síðan að vinna mjög náið með fyrirtækjunum að því að þróa viðskiptahugmyndina, opna á viðskiptatengsl, opna dyr fyrir erlendum fjárfestum og svo framvegis.
„Við í Arion banka erum búin að vera mjög virk í þessum geira síðan 2012. Nú hefur Arion banki fjárfest í 54 sprotafyrirtækjum. Vonandi erum við að búa til einhverja sögu. Þetta er áþreifanlegur stuðningur.“