Innlent

Lambalát greinst á Brimnesi í Dalvíkurbyggð

Birgir Olgeirsson skrifar
Algengt er að ærnar hafi tal, en beri þá dauðum eða mjög veikburða lömbum.
Algengt er að ærnar hafi tal, en beri þá dauðum eða mjög veikburða lömbum. visir/pjetur
Lambaalát af völdum kampýlóbakterbakteríu hefur greinst á Brimnesi í Dalvíkurbyggð og margar ær látið. Þetta kemur fram í frétt á vef Matvælastofnunar sem segir að ef ærnar sýkjast af þessari bakteríu eru miklar líkur á lambaláti, sem þá kemur fram síðustu tvo mánuði meðgöngu, en einnig er algengt að ærnar hafi tal, en beri þá dauðum eða mjög veikburða lömbum.

Matvælastofnun segir að ekki hafi enn tekist að tegundagreina bakteríuna, en unnið er áfram að því. Geta smitleiðir verið verið margvíslegar, svo sem eins og að fuglar mengi fóður eða smit berist milli gripa á húsi.

Matvælastofnun segir mikilvægt að fjarlægja strax hildar og fóstur og  hreinsa undan ánum og sótthreinsa staðinn ef sýking kemur upp. mitgát milli bæja er nú sem endranær mikilvæg og  þurfa menn að gæta þess að fara ekki í óhreinum húsafötum eða stígvélum inn í hús hjá öðrum, en best fer á því að bændur hafi tiltækan eigin vinnu- og skófatnað fyrir sína þjónustuaðila.

Lyf ná ekki að stöðva þetta og því mikilvægt að viðhafa gott hreinlæti s.s. góðan handþvott og verja og ganga vel um fóður. Kampýlóbakter er algeng baktería og í dýraríkinu er hana einna helst að finna í fiðurfé en Matvælastofnun segir lambalát af völdum kampýlóbakterbakteríu vera fremur fátítt hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×