Menning

Sýningar og fræðsla árið um kring auk útlána

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Útlán bóka og diska verður áfram kjarnaþjónusta safnsins,“ segir Guðrún Dís Jónatansdóttir hjá Borgarbókasafninu.
„Útlán bóka og diska verður áfram kjarnaþjónusta safnsins,“ segir Guðrún Dís Jónatansdóttir hjá Borgarbókasafninu. Vísir/GVA
„Framtíðarsýnin er sú að smám saman verði allar starfsstöðvar Borgarbókasafnsins þannig að þar verði viðburðir og sýningar, auk útlána bóka og diska, sem verður áfram kjarnaþjónusta safnsins. Yfirheitið verður alls staðar Borgarbókasafn en undirheiti verða ólík eftir hverfum, Spöngin menningarhús, Grófin menningarhús, Gerðuberg menningarhús og svo framvegis. Við leggjum aukna áherslu á staðsetninguna,“ segir Guðrún Dís Jónatansdóttir, nýr deildarstjóri viðburða, fræðslu og miðlunar Borgarbókasafnsins.

Guðrún Dís segir húsnæði Borgarbókasafnsins nú gefa mismikil tækifæri til sýningarhalds og annarra menningarviðburða en margt sé þar að breytast. Grófarhúsið verði til dæmis stækkað, og ný miðstöð sé að rísa í Úlfarsárdal, með skóla, sundlaug, íþróttasvæði og bókasafni með aðstöðu fyrir frekari menningarstarfsemi.

Undanfarin ár hefur Guðrún Dís gegnt starfi forstöðumanns Gerðubergs. Hún segir að í þeim framtíðarpælingum sem fram hafi farið hjá starfsfólki Borgarbókasafnsins og víðar á Norðurlöndum undanfarið hafi gjarnan verið litið til starfsemi Gerðubergs, stefnan sé að þróa bókasöfnin áfram í anda þess. Haldið verði þeirri stefnu sem þar hefur ríkt, að vera með fjölbreytt sýningarhald og viðburði af ólíku tagi.

„Við verðum áfram með kaffikvöldin á miðvikudagskvöldum í Gerðubergi sem eru ótrúlega vel sótt og vinsæl, erum með tvær nýjungar í því sambandi, sagnakaffi og leikhúskaffi. Heimspekikaffið er að sprengja staðinn utan af sér. Svo hjálpa sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum krökkum við heimanám, bæði í Gerðubergi og í Grófarhúsi, og sú þjónusta verður í boði í Spönginni líka. Það verkefni var stílað á börn af erlendum upprunan í byrjun en er nú opið fyrir alla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×