Innlent

Landspítalinn braut tvisvar gegn sama lækninum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Landspítalinn hafi brotið lög í ráðningarferli árið 2012 og sniðgengið Stefán Einar Matthíasson. Áður hafði kærunefnd jafnréttismála, komist að þeirri niðurstöðu að Stefán hafi verið hæfastur í starf yfirlæknir æðaskurðlækna, en hann var ekki ráðinn.

Landspítalinn höfðaði málið á hendur Stefáni og krafðist þess að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði felldur úr gildi. Þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Landspítalinn hafi brotið gegn ákvæðum laga númer 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf yfirlæknis æðaskurðlækninga.

Stefán hafði sótt um stöðu yfirlæknis æðaskurðlækninga árið 2012 og var talinn hæfari til að gegna starfinu en sú sem var ráðin. Stöðunefnd lækna mat alla þrjá sem sóttu um starfið hæfa, en raðaði þeim ekki upp eftir hæfni og vísaði í umsagnir sínar.

Þar kom fram „allmikill munur á umsækjendum á mælanlegum hæfnisþáttum svo sem menntun, starfsreynslu þar á meðal við æðaskurðlækningar, kennslu- og stjórnunarreynslu, félags­störf og rit­störf,“ eins og segir í dómsorðum Héraðsdóms Reykjavíkur.

Hæstiréttur segir að dómur héraðsdóms skuli standa og að ríkissjóður greiði málskostnaðinn.

Árið 2010 dæmdi Hæstiréttur Landspítalann til að greiða Stefáni fimm milljónir vegna ólögmætrar uppsagnar árið 2005 og Stefán hafði ekki verið í föstu starfi á sjúkrahúsi í sex ár þegar hann sótti um stöðu yfirlæknis.

Dóm Hæstaréttar má sjá hér á heimasíðu réttarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×