Fótbolti

Óeirðir brutust út í leik hjá Arnóri | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlé var gert á leik Torpedo Moskvu og Arsenal Tula í gær.
Hlé var gert á leik Torpedo Moskvu og Arsenal Tula í gær. vísir/getty
Arnór Smárason kom inn á undir lokin þegar Torpedo Moskva vann 1-3 sigur á Arsenal Tula á útivelli í rússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Þetta var þriðji leikur Arnórs fyrir Torpedo síðan hann kom til liðsins á láni frá Helsingborg í Svíþjóð. Skagamaðurinn skoraði m.a. í sínum fyrsta leik fyrir rússneska liðið, í 1-1 jafntefli við topplið Zenit frá Pétursborg.

Stuðningsmenn Tordepo eru margir hverjir blóðheitir en stöðva þurfti leikinn í gær eftir að hópur af stuðningsmönnum Torpedo réðst inn á svæði þar sem stuðningsmenn Arsenal Tula voru.

Upp úr sauð og slagsmál brutust út. Óeirðalögregla skakkaði að lokum leikinn og handtók um 20 manns.

Í samtali við Fótbolta.net sagðist Arnóri hafa verið brugðið.

„Það var eins og gamlárskvöld væri komið aftur. Þetta eru alls ekki stilltustu stuðningsmenn í heimi. Menn tóku bara rununa á hina stuðningsmennina meðan leikurinn stóð yfir í fyrri hálfleik. Lögreglan var ekki mjög fljót á vettvang,“ sagði Arnór við Fótbolta.net.

„Það var rosalegt að sjá þetta. Menn eru margir hverjir algjörir hálfvitar, algjörlega klikkaðir. Við vorum svona 10 mínútur í klefanum og svo róaðist þetta og hægt var að halda leik áfram.

„Þessir stuðningsmenn eru kolruglaðir og maður hefur kynnst miklum látum síðan maður kom, það hefur verið kynþáttaníð og allskonar."

Myndband af óeirðunum má sjá hér að neðan en líklegt þykir að þær eigi eftir að draga dilk á eftir sér.


Tengdar fréttir

Arnór lánaður til Moskvu fram á sumar

Arnór Smárason er á leiðinni til rússneska félagsins Torpedo Moskvu en heimasíða sænska félagsins Helsingborgs IF segir frá því í dag að íslenski miðjumaðurinn sé á förum frá félaginu til Rússlands.

Arnór bjargaði stigi gegn toppliðinu

Arnór Smárason var bjargvættur Torpedo Moskvu þegar liðið náði í stig gegn stórliði Zenit frá Pétursborg í rússnesku úrvalsdeildinni, en lokatölur 1-1.

Arnór og félagar töpuðu í nágrannaslag

Arnór Smárason var í byrjunarliði Torpedo Moskvu sem tapaði 0-1 fyrir Spartak Moskvu í nágrannaslag í rússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×