Fjárkúgun er brot á 251. grein almennra hegningarlaga en þar segir:
„Hver, sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Í fréttum af málinu hefur Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vitnað til annars fjárkúgunarmáls sem átti sér stað árið 2013. Þar fékk Finnur Geirsson, forstjóri Nóa Síríus, bréf og í umslaginu voru tvö súkkulaðistykki, sem bremsuvökva hafði verið sprautað í.
Bréfið innihélt hótun þess efnis að ef Nói Síríus greiddi ekki tíu milljónir króna færu sams konar súkkulaðistykki, sem innihéldu banvænan vökva, í umferð í tugatali. Hótunarbréfinu var fylgt eftir með símtölum til Finns þar sem gefin voru fyrirmæli um afhendingu fjárins. Lögregla sat svo fyrir mönnunum í Hamrahlíð eftir að þeir sóttu pakkningu í bíl sem þeir töldu innihalda tíu milljónir króna.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sótti málið og fór fram á tíu mánaða og átta mánaða fangelsi yfir mönnunum. Mennirnir voru dæmdir í tíu og átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.