Innlent

Ekki á flótta undan fjölmiðlum en ætlar ekki að tala við Stöð 2

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ætlar ekki á neinum tímapunkti að tjá sig við fréttastofu Stöðvar 2 um samskipti sín við fyrrverandi aðstoðarmann innanríkisráðherra. Hún sagði þó í viðtali við Eyjuna nú síðdegis að hún væri ekki á flótta undan fjölmiðlum og hafnaði því að Persónuvernd hefði komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið lög.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefði brotið lög um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga með samskiptum sínum við Gísla Frey Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmann innanríkisráðherra. Starfaði hún þá sem lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Sjá einnig: Lögreglan ekki meðvituð um samskipti Sigríðar og Gísla ólíkt því sem hún segir

Heimildir fréttastofu herma að mikillar óánægju gæti innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með að Sigríður hafi ekki upplýst lögregluna um þessi samskipti meðan rannsókn lekamálsins var í gangi.

Sigríður var gestur Björns Inga Hrafnssonar í þættinum Eyjan á Stöð 2 nú síðdegis, en þar sagðist hún ekki hafa vitað af því að upplýsingar um samskipti hennar við Gísla Frey hefðu ekki fylgt málsgögnum til ríkissaksóknara. Það væri þó sennilega vegna þess að rannsóknin sneri að því að upplýsa hvernig minnisblaðið lak úr ráðuneytinu en samskipti hennar og Gísla áttu sér stað um sólarhring eftir lekann.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur ítrekað óskað eftir viðtali við Sigríði í kjölfar niðurstöðu Persónuverndar en ekki haft erindi sem erfiði. Hún hefur ekki viljað gefa skýringar á því hvers vegna hún vilji ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins. Nú síðdegis tjáði hún fréttamanni að hún muni ekki á neinum tímapunkti tjá sig um málið við fréttastofu Stöðvar 2 en sjá má samtal þeirra í lok myndbandsklippunnar hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×