Lífið

Þróar eigin uppskriftir að kaldbrugguðu kaffi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gísli Örn hóf kaffibarþjónaferilinn sautján ára að aldri og hefur sérstakan áhuga á kaldbrugguðu kaffi.
Gísli Örn hóf kaffibarþjónaferilinn sautján ára að aldri og hefur sérstakan áhuga á kaldbrugguðu kaffi.
Gísli Örn Guðbrandsson er 22 ára kaffibarþjónn með einskæran áhuga á þróun uppskrifta að kaldbrugguðu kaffi.

Kaffi, lagað eftir slíkri uppskrift sem Gísli þróaði, er nú komið í sölu hjá Te og kaffi, þar sem hann starfar en hann hóf kaffibarþjónaferilinn ungur, aðeins sautján ára.

Kaldbruggað kaffi er unnið með köldu vatni. „Kaffið kemst aldrei í snertingu við heitt vatn. Malað kaffi er látið liggja í köldu vatni í langan tíma, yfirleitt frá tólf tímum og upp í tuttugu og fjóra,“ útskýrir Gísli.

Hann segir að kaffið lagað á þennan máta sé nokkuð frábrugðið kaffi gerðu með sjóðandi vatni. „Kaffibaunin er full af uppleysanlegum efnum. Þegar þú notar heitt vatn þá leysast upp sum efni sem sumum þykja óæskileg. Þau gætu valdið því að kaffið verður beiskt eða súrt. Kaldbruggað kaffi er því aldrei beiskt eða súrt.“

Gísli hefur auk þess prófað sig áfram og fundið nýjar aðferðir til að brugga kaldbruggað kaffi. „Ég hef til dæmis notað rjómasprautu við að gera kaldbruggað kaffi. Þá setur maður kaffið í sprautuna og lætur það liggja þar. Þrýstingurinn í sprautunni gerir það að verkum að tíminn sem það tekur kaffið að verða til, svokallaður trekkingartími, styttist niður í tvær klukkustundir.“

Gísli er ánægður með að kaffi eftir hans uppskrift sé til sölu í Te og kaffi. „Já, það er mjög skemmtilegt. Mér finnst gaman hvað yfirmenn mínir eru tilbúnir að leyfa góðum hugmyndum að öðlast líf.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×