Lífið

Tvinna saman sameiginleg áhugamál með útgáfufélaginu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Þær Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Ágústa Gunnarsdóttir og Hildigunnur Sigvaldadóttir standa að útgáfufélaginu Prímus.
Þær Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Ágústa Gunnarsdóttir og Hildigunnur Sigvaldadóttir standa að útgáfufélaginu Prímus. Mynd/ElsaMaría
Útgáfufélagið Prímus er á vegum Skapandi sumarstarfa í Kópavogi og er markmið þess að tengja saman skáldskap og myndlist en stofnendur Prímuss, þær Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Ágústa Gunnarsdóttir og Hildigunnur Sigvaldadóttir, eru allar nemendur í myndlist við Listaháskóla Íslands og Ágústa segir útgáfuna tvinna saman sameiginleg áhugamál þeirra.

„Við erum allar að takast á við frásagnir í listaverkunum okkar þannig að þetta lá svolítið beint við þegar við vorum að tala um að sækja um hjá Skapandi sumarstörfum, þá kom þessi hugmynd upp.“

Þær vinkonur létu slag standa og stofnuðu útgáfuna og segir Ágústa þær stefna á að gefa út ung skáld og bjóða upp á skáldtengda listgjörninga, listaverk og útgáfu í sumar.

„Við vorum að búa til póstljóð í vikunni og erum búnar að prenta þau og bera út í hús í Hlíðarhjalla í Kópavogi þar sem allt umstangið var í vikunni,“ segir Ágústa.

Póstljóðið var prentað á póstkort og borið út í hús í Hlíðarhjalla í Kópavogi.Mynd/Prímus
Póstljóðið sem borið var í hús er ljóðið Túristi á æskuslóðum og er eftir ljóðskáldið Ólaf Sverri Traustason en það var prentað, líkt og nafnið gefur til kynna, á póstkort og útilokar Ágústa ekki að þær muni framkvæma fleiri áþekka gjörninga í sumar. 

Að auki stefna þær á að gefa út ljóðahefti á tveggja vikna fresti sem hægt verður að fjárfesta í á vef útgáfunnar Primusutgafa.tumblr.com og mögulega á fleiri stöðum. 

„Við erum ennþá að sanka að okkur efni en við erum komnar með þónokkur skáld núna. Við birtum ekki eftir alla, erum með vald yfir því sem við birtum, en viljum endilega fá fleiri skáld til okkar,“ segir Ágústa að lokum og bendir áhugasömum ljóðskáldum á að hægt sé að hafa samband við útgáfuna í gegnum Facebook.com/primusutgafa en útgáfan stefnir á að halda starfsemi sinni áfram eftir að Skapandi sumarstörfum lýkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×