Sport

Djokovic í átta manna úrslit á 23. risamótinu í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic.
Novak Djokovic. Vísir/Getty
Serbinn Novak Djokovic hefur brunað inn í átta manna úrslitin á opna ástralska í tennis án þess að tapa einu einasta setti.

Novak Djokovic vann Gilles Müller frá Lúxemborg í sextán manna úrslitum 6-4 7-5 og 7-5. Djokovic mætir Milos Raonic frá Kanada í átta manna úrslitum mótsins.

Djokovic hefur unnið allar fjórar viðureignir sínar á mótinu án þess að tapa setti en Serbinn öflugi hefur þar sem unnið tólf sett í röð og sent Slóvena, Rússa, Spánverja og Lúxemborgara heim.  

Þetta er 23. risamótið í röð þar sem Novak Djokovic kemst í átta manna úrslit eða síðan að hann datt út í 3. umferð opna franska mótsins árið 2009.

Novak Djokovic datt reyndar út í átta manna úrslitunum á þessu móti í fyrra en hafði unnið það þrjú ár í röð þar á undan (2011-2013).

Svisslendingurinn Stan Wawrinka, sem hefur titil að vera, komst líka áfram í átta manna úrslitin eins og Kei Nishikori frá Japan. Þeir tveir munu mætast í átta manna úrslitunum.

Í hinum tveimur leikjunum spila Tékkinn Tomás Berdych og Spánverjinn Rafael Nadal annarsvegar og Bretinn Andy Murray og Ástralinn Nick Kyrgios hinsvegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×