Erlent

Hjólreiðamaður í Idaho kveikti gróðureld út frá salernispappír

Bjarki Ármannsson skrifar
Atvikið svipar óneitanlega til þess þegar ferðamaður kveikti gróðureld í Grábrókarhrauni fyrr í mánuðinum.
Atvikið svipar óneitanlega til þess þegar ferðamaður kveikti gróðureld í Grábrókarhrauni fyrr í mánuðinum. Myndir/Jökull Fannar/Slökkviliðið í Boise
Stórbruni sem náði yfir nærri 300 þúsund fermetra svæði í þjóðgarði í Idaho ríki í Bandaríkjunum kviknaði þegar hjólreiðamaður reyndi að kveikja í notuðum salernispappír eftir að hafa gengið örna sinna.

Að sögn Landgræðslustofnunarinnar þar vestra gróf maðurinn pappírinn í jörðina eftir að hafa kveikt í honum en logandi glóð barst samt í skraufþurrt gras á svæðinu. Úr varð eldur sem þurfti tvær þyrlur, flugvél og marga slökkviliðsbíla til að slökkva.

Lesendum Vísis finnst frásögnin ef til vill nokkuð kunnugleg, en atvikið svipar óneitanlega til þess þegar ferðamaður kveikti gróðureld í Grábrókarhrauni fyrr í mánuðinum. Sá var einnig einn sinnar ferðar á reiðhjóli þegar kallið barst og ákvað að kveikja í salernispappírnum eftir á með ofangreindum afleiðingum.

„Hann var þarna með vatnsbrúsa og það dugar ekki,“ sagði Theódór Þórðarson, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, þá í samtali við Vísi. Hann ráðlagði fólki að fara mjög varlega með eld úti í náttúrunni, sérstaklega þegar gróður er þurr.

„Mosinn er mjög þurr þarna og hann missir þetta bara frá sér.“

Maðurinn í Idaho gaf sig fram til lögreglu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hann verði ákærður fyrir atvikið, að því er vefsíðan Mashable greinir frá.

Great team effort by Boise Fire and BLM crews yesterday afternoon! The fire at Hulls Gulch Reserve, located in the 3000...

Posted by Boise Fire Department on 23. júlí 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×