Lífið

„Þetta er ákveðið lúxusvandamál“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Aðalleikararnir Sigurður og Theodór, Grímur og Grímar ásamt Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra.
Aðalleikararnir Sigurður og Theodór, Grímur og Grímar ásamt Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra.
„Þetta er rétt að róast núna. Grímur var til dæmis bara í einu viðtali í dag,“ segir Grímar Jónsson, framleiðandi Hrúta. Ríflega tuttugu manna hópur fór frá Íslandi út til Cannes til að vera viðstaddur frumsýningu myndarinnar á hátíðinni.

„Það komu líka um fjörutíu manns frá Danmörku sem komu að myndinni. Stærstur hluti hópsins fór í gær en við Grímur verðum áfram fram að verðlaunaafhendingunni á laugardag.“

Frá því að myndin var frumsýnd hafa Grímar og Grímur Hákonarson, leikstjóri, verið á hvolfi við kynningu myndarinnar. „Þetta er ákveðið lúxusvandamál. Síminn hefur verið að hringja og ég þarf að ákveða mig hvort ég ætla að selja þessum eða hinum myndina. Nú rétt í þessu fékk ég að vita að þrjú fyrirtæki í Japan berjast um réttinn á henni. Fyrst núna höfum við tíma núna til að njóta verunnar hér.“

Tvímenningarnir hafast við á skútu í Cannes og eru á kvöld í leið í boð til fransks meðframleiðanda myndarinnar. Í gær snæddu þeir með öðrum leikstjórum sem eiga myndir á hátíðinni og aðstandendum hennar. Á næstu dögum ætla þeir að njóta dvalarinnar og reyna að sjá sem flestar myndir.

Þeir gera ráð fyrir því að koma heim á sunnudag en myndin verður frumsýnd á Íslandi á mánudaginn kemur. Frumsýningin fer fram á Laugum í Reykjadal og er ætluð bændum úr Bárðardal sem komu að myndinni.

„Við fengum ótrúlega mikla hjálp og stuðning frá öllum á svæðinu og án þeirra hefði þetta ekki verið hægt. Það er gott að geta gefið örlítið til baka með því að leyfa þeim að sjá myndina fyrst,“ segir Grímar.

Grímur Hákonarson, leikstjóri, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra bregða sér í líki Gumma og Kidda.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×