Innlent

Líkir flutningi á langreyðarkjöti við ólöglegar fílaveiðar

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
1.700 tonn af langreyðarkjöti frá Hvali hf., fyrirtæki Kristjáns Loftssonar, hefur legið í skipinu Winter Bay í Hafnarfjarðarhöfn í um tvær vikur.

Skipið er bilað og hefur ekki getað lagt af stað frá bryggju.  Ekki er fyrirsjáanlegt hvenær það verður en áfangastaður er skráður Luanda, höfuðborg Angóla, þótt til standi að koma kjötinu á markað í Japan.

Fyrir rúmu ári síðan var siglt með tvö þúsund tonn af langreyðarkjöti úr þessari höfn til Japans frá Hvali hf. Þá var farin óhefðbundin siglingaleið og siglt með ströndum Afríku. Siglingin tók einn og hálfan mánuð og þurfti skipið að hætta við að koma til hafnar á einum áfangastað vegna mótmæla.

Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin furða sig á því að nú leggi annað skip af stað. Sigursteinn Másson, fulltrúi samtakanna á Íslandi, líkir flutningnum við flutning á fílabeini.

„Heimurinn lítur á þessar langreyðarveiðar og milliríkjaviðsskipti, eða útflutning, Hvals hf og Kristjáns Loftssonar á þessu langreyðarkjöti svipuðum hætti og heimurinn lítur á veiðar á fílum, ólöglegar fílaveiðar í Afríkur og veiðar á nashyrningum. Það er þess vegna sem alþjóðasamfélagið leggst gegn þessum flutningum. Þetta er til vandræða fyrir Ísland og þessi skipasigling, sem sennilega á eftir að taka einn eða tvo mánuði, á eftir að vekja umtalsverða athygli vítt og breitt um heiminn sem er aldeilis ekki Íslandi til góða.“


Tengdar fréttir

„Business as usual“

Kristján Loftsson hjá Hval hf. segir ekkert nýtt í hótunum Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem í minnisblaði sínu til bandaríska þingsins, gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga á langreyði harðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×