Erlent

Abe biðst ekki afsökunar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Shinzo Abe segir óþarft að biðjast endalaust afsökunar.
Shinzo Abe segir óþarft að biðjast endalaust afsökunar. vísir/epa
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, segir óþarfi að Japanir haldi endalaust áfram að biðjast afsökunar á grimmdarverkum sínum í seinni heimsstyrjöldinni.

„Við eigum ekki að láta börn okkar, barnabörn og jafnvel framtíðarkynslóðir, sem hafa ekkert haft með stríðið að gera, vera dæmd til þess að biðjast afsökunar,“ sagði hann.

Hins vegar lýsti hann, í ávarpi í tilefni þess að 70 ár voru í gær liðin frá stríðslokum, yfir sorg sinni vegna atburðanna og sagði Japana vera óhrædda við að horfast í augu við ábyrgð sína.

„Japan hefur ítrekað lýst yfir djúpri eftirsjá og komið með einlæga afsökunarbeiðni vegna framferðis síns í stríðinu,“ sagði Abe í ávarpi sínu, og vísaði þar til þess að forverar hans í embætti hafi þegar beðist afsökunar. Það gerði Tomiichi Murayama í ávarpi sínu árið 2005 þegar 50 ár voru liðin frá því Japanir gáfust upp, og það gerði Junichiro Koizumi aftur árið 2005 þegar 60 ár voru liðin frá stríðslokum.

Grannt var fylgst með því hvort Abe myndi biðjast afsökunar, þar sem hann hefur verið gagnrýndur fyrir herskárri tón en forverar hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×