Menning

Grein Höllu birtist í UN Chronicle

Guðrún Ansnes skrifar
Halla Hrund Logadóttir segir 90 prósent nemenda við Orkuháskólann vera erlenda, en Íslendingar þyki standa framarlega í þessum efnum.
Halla Hrund Logadóttir segir 90 prósent nemenda við Orkuháskólann vera erlenda, en Íslendingar þyki standa framarlega í þessum efnum. Vísir/Ernir
„Ég held þetta sé gott dæmi um að mörg ríki horfi til Íslands varðandi hvernig hægt er að færa orkunotkun frá olíu og kolum yfir í endurnýtanlega orkugjafa,“ segir Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri Íslenska orkuháskólans við Háskólann í Reykjavík, en á dögunum birti UN Chronicle grein eftir Höllu.

Um er að ræða aðaltímarit Sameinuðu þjóðanna sem hefur komið út tvisvar til þrisvar á ári síðan 1946, og er lögð áhersla á ákveðinn málaflokk hverju sinni. Yfirskrift þessa tölublaðs var Sustainable Energy, eða sjálfbær orka, í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP21, sem fram fór í París í byrjun desember. Dæmi um aðra greinahöfunda á þessu ári eru Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari og Nóbelsverðlaunahafi, og Míkhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna.

„Greinin fjallar um hvort önnur ríki þessa heims geti lært eitthvað af því ferðalagi sem Ísland tók sér fyrir hendur, að breyta úr kolum og olíu yfir í endurnýtanlega orkugjafa. Það eru ekki svo margir áratugir síðan Íslendingar voru háðir fyrrnefndum orkugjöfum, en í dag eru níu af hverjum tíu húsum hituð upp með jarðvarma og rafmagnið fengið með endurnýjanlegri orku. Aðrar þjóðir horfa því til Íslands í þessum efnum,“ útskýrir Halla.

Halla er nánast vakin og sofin yfir málaflokknum, sem hún segir stærsta umhverfismál okkar tíma. „Við gerum lítið án aðgangs að rafmagni og orkumálin snerta því á flestum flötum samfélagsins. Ef við höldum áfram að nota mengandi orkugjafa þá leiðir það af sér margs konar breytingar, svo sem breytingar á veðurfari sem hefur áhrif á matvælaframleiðslu og fæðuöryggi, sem getur haft áhrif á heilsu, stöðugleika samfélaga, viðskipti og svo framvegis,“ bendir hún á og heldur áfram: „Þetta snýst allt um hvernig við getum aukið lífsgæði allra á umhverfisvænan hátt, með breyttri núverandi orkunotkun.“

Halla segist sannarlega finna fyrir vaxandi áhuga á málaflokknum í störfum sínum innan veggja Íslenska orkuháskólans þar sem erlendir námsmenn eru í miklum meirihluta, en auk þess hefur Halla samið kennsluefni í samstarfi við Harvard-háskóla, sem kennt hefur verið víða, meðal annars við Harvard- og Columbia- háskóla.

„Yfir 90% prósent þeirra sem stunda námið eru erlendir nemendur. Það er akkúrat það sem er gaman, að sjá hvernig nemendur blómstra þegar þeir taka þekkinguna okkar og halda áfram. Það er mjög áþreifanlegur áhugi á þessum málum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×