Lífið

Hugmyndin fæddist í gufubaði

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hafdís segir viðbrögðin við geisladisknum hafa komið sér skemmtilega á óvart.
Hafdís segir viðbrögðin við geisladisknum hafa komið sér skemmtilega á óvart. Vísir/Ernir
„Ég bjó í Danmörku og þá var ég með mikla heimþrá. Svo flutti ég til Íslands og var stödd í gufubaði þar sem var verið að spila regnskógarhljóð, Amasonfugla og eitthvað. Þá fór ég að hugsa hvað það væri æðislegt ef það væru íslensk hljóð,“ segir tónlistarkonan Hafdís Bjarnardóttir sem gaf nýverið út geisladiskinn Íslandshljóð.

Hafdís ferðaðist um Ísland og tók upp ýmiss konar náttúruhljóð. „Ég tók mest upp á nóttunni til þess að losna við hljóð af mannavöldum,“ en á disknum má meðal annars hlýða á fugla, hveri og fossa.

Diskurinn hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og mun Hafdís flytja fyrirlestur um verkefnið á námskeiði um náttúruhljóðritun í sumar. „Chris Watson, sem er svona frægasti náttúruhljóðritari heims, ásamt Jez Riley French er alltaf með námskeið hér einu sinni á ári fyrir þá sem vilja hljóðrita umhverfishljóð og þeir báðu mig um að vera með fyrirlestur á námskeiðinu í sumar,“ segir hún hress en einnig hefur diskurinn verið spilaður í breska ríkisútvarpinu á BBC 3.

Hafdís, sem leiddist nánast óvart út í þetta verkefni, útilokar ekki að hún muni jafnvel halda náttúruhljóðritununum áfram í sumar en hún segir viðbrögð frá Íslendingum búsettum erlendis hafa komið sér skemmtilega á óvart. „Það var eitthvað sem ég var ekki búin að átta mig á, ég er búin að fá svolítið af pöntunum frá Íslendingum sem búa erlendis,“ segir hún að lokum glöð í bragði. En nánar má fráðast um geisladiskinn á heimasíðu Hafdísar. 

Í tilefni af útgáfu geisladisksins verður opið hús í Fræðasetrinu í Gróttu á Seltjarnarnesi klukkan 21.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×