Körfubolti

McCarthy og Ingi Þór best í seinni hlutanum | Snæfell á þrjár í úrvalsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristin McCarthy hefur verið frábær í vetur.
Kristin McCarthy hefur verið frábær í vetur. vísir/vilhelm
Kristin Denise McCarthy, leikmaður Snæfells, var kjörinn besti leikmaður seinni hluta Dominos-deildar kvenna sem gerður var upp í íþróttamiðstöðinni í Laugardalnum í dag.

McCarthy skoraði 27,1 stig að meðaltali í leik og tók að meðaltali 13,1 frákast fyrir Snæfell sem varð deildarmeistari, en liðið er jafnframt ríkjandi Íslandsmeistari.

Snæfell átti tvær til viðbótar í úrvalsliði seinni hlutans; leikstjórnandann Hildi Sigurðardóttur og Gunnhildi Gunnarsdóttur sem spilað hefur frábærlega á tímabilinu.

Snæfell vann öruggan sigur í deildinni, en það lauk keppni með 50 stig eftir 25 sigra og aðeins þrjú töp. Keflavík varð í öðru sæti með 44 stig.

Sara Rún Hinriksdóttir úr Keflavík og Ragna Margrét Brynjarsdóttir úr Val eru einnig í úrvalsliðinu en besti þjálfari seinni hlutans var kjörinn Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells.

Jóhanna Björk Sveinsdóttir úr Breiðabliki er dugnaðarforkur seinni hlutans og Sigmundur Már Herbertsson var kjörinn besti dómarinn af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

Úrslitakeppnin í Dominos-deild kvenna hefst á morgun þegar Snæfell tekur á móti Grindavík og Keflavík fær Hauka í heimsókn. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitarimmuna.

Úrvalslið seinni hluta Dominos-deildar kvenna:

Hildur Sigurðardóttir, Snæfelli

Gunnhildur Gunnarsdóttir, Snæfelli

Kristin McCarthy, Snæfelli

Sara Rún Hinriksdóttir, Keflavík

Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Val

Besti þjálfarinn:

Ingi Þór Steinþórsson, Snæfelli

Dugnaðarforkurinn:

Jóhanna Björk Sveinsdóttir, Breiðabliki

Besti dómarinn:

Sigmundur Már Herbertsson

Besti leikmaðurinn:

Kristin McCarthy, Snæfelli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×