Lífið

Korgur kominn í bolla kaffiklúbbs fjölmiðlakvenna

Jakob Bjarnar skrifar
Ellý Ármanns og Marta María eru nú komnar í hár saman -- átökin eru dramatísk.
Ellý Ármanns og Marta María eru nú komnar í hár saman -- átökin eru dramatísk.
Ellý Ármanns er einhver þekktasti blaðamaður landsins og hún hefur farið mikinn að undanförnu á nýjum fréttavef sínum, Fréttanetinu, sem hún stofnaði til fyrir um mánuði.

Ef einhver jafnast á við Ellý í því að skrifa og birta fréttir sem fara hátt þá er það Marta María á sínu Smartlandi sem mbl.is hýsir. Nú eru þær fjölmiðladrottningar komnar í hár saman svo um munar því Ellý sakar Mörtu Maríu um að stela frá sér fréttum. Annars vegar frétt þess efnis að Björk sé með sumarbústað sinn á Þingvöllum á sölu og hins vegar um villu Ingólfs Helgasonar bankastjóra – en fasteignaauglýsingar hafa oft reynst þeim Mörtu og Ellý gjöful mið í fréttaleit.

Átök þeirra hafa vakið verulega athygli og fylgjast menn á öðrum fjölmiðlum grannt með gangi mála, svo sem Atli Fannar Bjarkason á Nútímanum.

Ellý hefur skrifað Haraldi Johannessen bréf þar sem hún kvartar undan þessum stuldi. (Sjá neðar.)

Uppnám í kaffiklúbbnum

Það sem gerir þennan slag enn dramatískari en ella er að þær Ellý Ármanns og Marta María hafa nú um árabil verið saman í valinkunnum Fjölmiðlakvennakaffiklúbbi sem hittist reglulega, þar sem blaðakonur og ritstjórar bera saman bækur sínar og fara yfir málin. Það er sem sagt kominn korgur í kaffibollana. Ein þeirra sem tilheyrir þessum hópi er Björk Eiðsdóttir, ritstjóri tímaritsins Man, og henni líst ekki á blikuna.

„Ég hef ekkert um þetta að segja. Ég er vinur allra. Ég skil ekki svona slag,“ segir hún spurð hvort ekki blasi upplausn við innan klúbbsins. Hún segir ekkert liggja fyrir hvort þessi staða verð tekin fyrir á fundi eða hvort til greina komi að víkja annarri hvorri úr félaginu?

„Nei, guð. Ég hélt að það væru allir vinir,“ segir Björk og ber ekki á móti því að nú hrannist upp óveðursskýin.

„Þetta virðist vera að vinda hratt uppá sig. Ég vil sem minnst um þetta segja. Ég fylgist bara með þessu í fréttum,“ segir Björk. Hún er ófáanleg til að tjá sig um hvar hún standi í þessu stríði.

„Ég geri ekki upp á milli vina minna.“

Björk Eiðsdóttir. Uppnám ríkir nú í Kaffiklúbbnum en Björk vill ekki gera upp á milli vina sinna.Vísir/Anton Brink
Bréf Ellýar til ritstjóra Moggans

Sæll Haraldur,

Undirrituð eigandi Fréttanetsins verð að lýsa furðu minni á vinnubrögðum Mbl.is í dag þar sem tvær fréttir sem birtust á vef mínum um páskana eru endurskrifaðar á Mbl.is án þess að geta uppruna þeirra. Bæði þessi hús hafa verið lengi til sölu og því ólíklegt að þetta komi inn á borð blaðamanns Mbl.is nokkrum dögum eftir að fréttirnar birtust á Fréttanetinu hjá mér. Báðar fréttirnar eru efstar á lista ykkar yfir mest lesnu fréttirnar í dag á Mbl.is og ég harma að svona stór miðill skuli endurskrifa fréttir frá nýjum litlum miðlum með þessum hætti á þess að geta þess hvað fréttin kemur. Það hefur tíðkast sú regla að fjölmiðlar virði þá miðla sem fyrstir koma með fréttina.

Vona að þetta verði leiðrétt sem fyrst og vinnubrögðin endurskoðuð.

Hlý kveðja

Ellý Ármannsdóttir

ritstjóri Fréttanetsins






Fleiri fréttir

Sjá meira


×