Lífið

Ný og glæsileg búð opnuð í Hrísey í dag

Linda María Ásgeirsdóttir
Linda María Ásgeirsdóttir
Ný Hríseyjarbúð verður opnuð í eyjunni í dag en undanfarið hefur verið unnið að því að hefja rekstur á nýrri verslun í Hrísey eftir að rekstur Júllabúðar lagðist af. Forsaga málsins er sú að í byrjun apríl var haldinn fundur þar sem kynnt voru áform um stofnun hlutafélags um rekstur verslunar í Hrísey. Öllum gafst kostur á að gerast hluthafar, íbúum eyjunnar, sumarhúsaeigendum og öðrum velunnurum. Þann 20. apríl var kynningarfundur sem um fjörutíu manns sóttu og á fundinum voru kynnt drög að rekstraráætlun og áætluðum stofnkostnaði. Góðar umræður spunnust og voru fundarmenn almennt mjög jákvæðir. Á fundinum var hægt að gefa vilyrði fyrir hlutafé í hinu óstofnaða félagi og voru nokkrir sem staðfestu hlut sinn. Í byrjun maí var stofnað hlutafélag um verslunarrekstur í Hrísey og heitir það Hríseyjarbúðin ehf. Alls söfnuðust 3,8 milljónir króna í hlutafé og standa 55 hluthafar á bak við þá upphæð. „Það eru ófáar vinnustundirnar sem liggja að baki og ótrúlegt hvað fólk er búið að leggja á sig mikla vinnu til að koma þessu á koppinn. Búið er að ráða starfsmann í verslunina í sumar og nú er verið að leggja lokahönd á framkvæmdir. Von er á fyrstu vörusendingunni í dag og svo er bara að opna og koma lífi í húsnæðið,“ segir Linda María Ásgeirsdóttir, einn hluthafanna. Í Hrísey búa um 170 manns og yfir sumartímann er fjöldinn talsvert meiri og þörfin fyrir verslun töluverð. „Júllabúð var lokað í mars og það er ekki hægt að vera búðarlaus. Þetta er nauðþurftarbúð, og leggjum við áherslu á þessar daglegu vörur,“ segir Linda María og bætir við spurð út í verðlagið: „Við megum ekki hafa verðlagið of hátt, álagningin er hófleg, á þessum litlu stöðum er bara dýrara að versla því við höfum ekki Bónus.“ Í dag er mikil sjómannadagskrá í Hrísey og er opnun verslunarinnar lokahnykkur hátíðarhaldanna. Auk verslunarinnar verður á sama stað pósthús Hríseyinga. gunnarleo@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×