Erlent

John Kerry ræddi mál bandarískra fanga við Írana

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
John Kerry vill fá þá Bandaríkjamenn sem Íranar halda föngnum aftur til síns heima.
John Kerry vill fá þá Bandaríkjamenn sem Íranar halda föngnum aftur til síns heima. nordicphotos/afp
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, sagði mál þeirra fjögurra Bandaríkjamanna sem haldið er í fangelsi í Íran hafa verið rædd á hverjum einasta fundi á meðan viðræður stórvelda heimsins við Írana um kjarnorkumál landsins fóru fram.

Fjórir Bandaríkjamenn sitja í fangelsi í Íran. Blaðamaðurinn Jason Rezaian, landgönguliðinn Amir Hekmati, alríkislögreglumaðurinn Robert Levinson og kristni presturinn Saeed Abedini.

Abedini hefur verið í haldi frá 2012 fyrir að leiða kristið bænahald í Íran, Rezaian hefur verið í haldi frá því í fyrra fyrir njósnir og Hekmati frá 2011 fyrir sömu sök. Levinson var hins vegar tekinn í gíslingu í Íran árið 2007. Íranska ríkisstjórnin hefur ekki viljað gefa verustað hans upp.

„Það var ekki einn einasti fundur sem við héldum þar sem ég vakti ekki athygli á ríkisborgurum okkar sem eru í haldi Írana,“ sagði John Kerry við fréttastofu MSNBC í gær.

„Við erum mjög vongóð um að Íranar taki rétta ákvörðun og skili ríkisborgurum Bandaríkjanna aftur til síns heima,“ sagði Kerry enn fremur.

Fyrir viðræðurnar sagði talsmaður ríkisstjórnar Bandaríkjanna að mál fanganna yrðu ekki tengd við viðræðurnar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×