Fótbolti

Emil og félagar úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil í leiknum í kvöld.
Emil í leiknum í kvöld. vísir/epa
Verona er úr leik í ítölsku bikarkeppninni eftir 3-0 tap fyrir Napoli í 16-liða úrslitunum í kvöld.

Emil Hallfreðsson lék allan leikinn fyrir Verona sem hefur átt afar erfitt tímabil. Liðið er aðeins með sjö stig á botni ítölsku úrvalsdeildarinnar, níu stigum frá öruggu sæti, og er nú dottið úr leik í bikarkeppninni.

Omar El Kaddouri kom Napoli yfir strax á 4. mínútu leiksins og átta mínútum síðar var munurinn orðinn tvö mörk eftir að Belginn Dries Mertens skoraði.

Staðan var 2-0 í hálfleik og allt fram á 75. mínútu þegar varamaðurinn José Callejón skoraði þriðja mark Napoli og innsiglaði sigurinn. Napoli mætir Inter í 8-liða úrslitunum.

Fyrr í dag fóru fram tveir leikir í 16-liða úrslitunum.

B-deildarlið Spezia gerði sér lítið fyrir og sló út stórlið Roma eftir vítaspyrnukeppni.

Rómverjar tefldu fram mjög sterku liði en tókst þrátt fyrir það ekki að skora í venjulegum leiktíma né framlengingu. Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppninni þar sem taugar Spezia-manna reyndust sterkari.

Þeir skoruðu úr öllum sínum spyrnum á meðan Bosníumennirnir í liði Roma, Miralem Pjanic og Edin Dzeko, klikkuðu á sínum spyrnum. Lokatölur 2-4, Spezia í vil eftir vítakeppni.

Þá gerði Carpi, sem er í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar, sér lítið fyrir og vann Fiorentina, liðið í 2. sæti.

Aðeins eitt mark var skorað í leiknum en það gerði Antonio Di Gaudio á 76. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×