Erlent

Ólétt af fjórburum: „Maður lætur ekki 65 ára gamla konu ganga með fjögur börn“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Annegret Raunigk á fyrir þrettán börn með fimm mismunandi mönnum.
Annegret Raunigk á fyrir þrettán börn með fimm mismunandi mönnum. Vísir/bild/skjáskot
„Náttúrulega séð er ekki eðlilegt að 65 ára gömul kona verði þunguð,“ segir Arnar Hauksson kvensjúkdómasérfræðingur, en ótrúlegt tilfelli er komið upp í Þýskalandi þar sem 65 ára grunnskólakennari er ólétt af fjórburum.

Konan heitir Annegret Raunigk og á fyrir þrettán börn með fimm mismunandi mönnum. Settur dagur er eftir um tvo mánuði en hún mun fara á eftirlaun á næstunni.

„Það fer vissulega eftir líkamlegri heilsu hennar hvort þetta sé í raun hættulegt en það er margfalt meira álag fyrir 65 ára gamla konu að ganga með barn en tvítuga. Það að ganga með fjórbura er enn meira álag og hættulegra.“

Hér má sjá mynd af Raunigk sem tekin var þegar hún var 55 ára.mynd/facebook
Börnin hennar þrettán eru á aldrinum níu til 44 ára en konan segir í þýskum miðlum að hún hafi ákveðið að eignast annað barn þegar níu ára dóttir hennar sagðist vilja yngra systkini. 

Raunigk segir í samtali við Bild að hún hafi gengist undir tæknifrjóvgun á stofnun utan Þýskalands og hefur það verið harðlega gagnrýnt. 

„Þetta hljómar eins og hún hafi ekki fengið meðferð hjá virtri stofnun, maður lætur ekki 65 ára gamla konu ganga með fjögur börn. Börnin geta samt sem áður alveg verið heilbrigð ef fylgst er vel með, sem hlýtur að hafa verið gert með litningaprófum og fleira.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×