Gagnrýni

Mannleg flóttamannasaga

Atli Sigurjónsson skrifar
Hér eru Jesuthasan Antonythasan aðalleikari, Jacques Audiard leikstjóri og Kalieaswari Srinivasan leikkona í Dheepan með gullpálmann í Cannes.
Hér eru Jesuthasan Antonythasan aðalleikari, Jacques Audiard leikstjóri og Kalieaswari Srinivasan leikkona í Dheepan með gullpálmann í Cannes. Vísir/Getty
Dheepan eftir franska leikstjórann Jaques Audiard vann gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor en hún segir frá þremur flóttamönnum frá Srí Lanka; manni, konu og ungri stúlku, sem þekkjast ekkert en þykjast vera fjölskylda til að geta flúið ástandið í heimalandinu og setjast að í Frakklandi. Þau fá íbúð í innflytjendagettói en vandamálin halda áfram að elta þau.

Þótt Dheepan virðist í fyrstu vera einhvers konar vandamálamynd er hún í raun fyrst og fremst bæði saga um útlendinga sem eru að reyna að aðlagast nýju landi og saga um þrjár manneskjur sem þekkjast ekkert og eru að læra á hver aðra. Pólitíkin er í bakgrunninum og áherslan á hið mannlega.

Hér er tekist á við kunnugleg stef og sagan í grunninn svo sem ekki að segja neitt nýtt. En það sem gerir þessa mynd sérstaka er sjónarhornið þar sem lítið hefur verið fjallað um fólk frá Srí Lanka í vestrænni kvikmyndagerð, fæstir Vesturlandabúar vita mikið um landið nema að þeir hafa e.t.v. heyrt minnst á tamíltígrana.

Titilpersónan Dheepan var einmitt einn af tamíltígrunum en núna er hann að reyna að fjarlægjast þessa myrku fortíð sína, hann er ánægður í Frakklandi þrátt fyrir að eiga erfitt með að skilja samfélagið. En þótt myndin sé skýrð eftir honum er aðalkvenpersónan, Yalini, alveg jafn mikilvæg og myndin jafn mikið að segja hennar sögu og hans. Þykjustudóttir þeirra fær minna vægi en þó er gefin ágæt tilfinning fyrir því sem hún þarf að ganga í gegnum. Það hefði samt vel mátt gefa henni meira vægi þar sem hún er engu minna áhugaverð persóna en hin.

Leikstjórinn Audiard hefur sýnt áður að hann kann að gera myndir sem fjalla um dramatísk málefni en ná engu að síður að skemmta áhorfandanum. Hann nær rétta tóninum í Dheepan sem þrátt fyrir grafalvarlegan efnivið verður sjaldan of þung og þótt myndin sé ekki beinlínis hröð er stígandin stöðug og lítið verið að dvelja við hlutina eða eyða tíma í óþarfa. Dheepan er mynd sem heldur áhorfandanum en fær hann um leið til að hugsa.

En Audiard missir þó aðeins tökin í seinni hlutanum þar sem myndin umhverfist í hálfgerða spennumynd. Það er eins og hann hafi ekki alveg treyst því að mynd um gervifjölskyldu að fást við líf sem innflytjendur í Frakklandi væri nóg til að heilla áhorfendur og fundist hann þurfa að setja smá hasar í myndina svo hún væri söluvænni. Seint í myndinni fer af stað gengjastríð í innflytjendahverfinu og Dheepan og Yalini flækjast inn í málin. Við það myndast hálfgerður Hollywoodblær á myndina sem passar ekki nógu vel við restina og dregur heildarmyndina niður.

Það hefði í raun verið feikinóg að fylgjast með vandamálum fjölskyldunnar í tvo klukkutíma og láta ofbeldið og pólitíkina vera í bakgrunninum og undirliggjandi frekar en að flækjast um á yfirborðinu og fyrir vikið verður myndin ekki eins sterk og hún hefði geta orðið. En þrátt fyrir það er hægt að mæla með henni fyrir fyrstu 90 mínúturnar eða svo. 

Niðurstaða: Áhrifarík mynd sem fær mann til að hugsa og skemmtir manni í senn en missir flugið í lokakaflanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.