Innlent

Skartgriparánið í Hafnarfirði: Aðeins lítill hluti þýfisins fundinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ræningjarnir flúðu á hvítum Nissan jepplingi sem þeir skildu eftir við Grindavíkurafleggjarann.
Ræningjarnir flúðu á hvítum Nissan jepplingi sem þeir skildu eftir við Grindavíkurafleggjarann. mynd/loftmyndir.is
Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að verðmæti þýfis sem tekið var í skartgriparáni í Gullsmiðjunni í Hafnarfirði þann 22. október sé á bilinu 1,5 til 2 milljónir króna. Rannsókn málsins miðar vel og vonast er til þess að henni ljúki á næstu vikum.

Aðeins lítill hluti þess hefur fundist og segir Margeir lögreglu í raun ekki vita hvað hafi orðið um restina af þýfinu. Eitt af því sem lögreglan skoðar meðal annars er hvort að þýfið hafi verið sent úr landi en að sögn Margeirs gerir lögreglan sér ekki miklar vonir um að finna það.

Einn maður er í gæsluvarðhaldi vegna málsins á grundvelli almannahagsmuna en tveir aðrir eru grunaðir í málinu en þeir sitja ekki lengur í gæsluvarðhaldi. Mennirnir eru íslenskir og hafa allir komið við sögu lögreglu áður.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir þeim sem enn er í haldi að hinir tveir sem einnig eru grunaðir í málinu haldi því fram að hann hafi skipulagt ránið.

Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu 34 í Hafnarfirði.Vísir/Vilhelm
Skipulagt og hrottafengið rán

Margeir segir það liggja ljóst fyrir að ránið var skipulagt. Greint var frá því á Vísi að ránið hafi verið hrottafengið eins og sjá mætti á upptökum úr öryggismyndavélum verslunarinnar.

Mennirnir tveir sem réðust inn í verslunina voru grímuklæddir, með öxi á lofti og ógnuðu starfsmanni á sextugsaldri sem komst undan á flótta. Starfsmanninn sakaði ekki en var mjög brugðið. Lögregla sagði myndbandið sláandi.

Að ráninu loknu stukku mennirnir í hvítan Nissan jeppling, brunuðu yfir grasbala og yfir á Hringbrautina.

Ekki fleiri grunaðir um aðild að ráninu

Hámarkshraði í götunni er 30 kílómetrar á klukkustund en vitni segja að um ofsaakstur hafi verið að ræða. Mildi var að ekki varð líkamstjón þegar jepplingurinn ók á aðra bifreið með fólk innanborðs.Um hálftíma síðar fannst jepplingurinn mannlaus á bílastæði við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

Aðspurður um hvort fleiri en þremenningarnir séu grunaðir um aðild að því segir Margeir lögregluna ekki hafa sannanir þess efnis enn sem komið er í höndunum. Nokkrir aðilar voru handteknir í upphafi málsins og yfirheyrðir vegna þess en hvort það skili sér í því að þeir fái stöðu sakborninga sé ótímabært að segja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×