Innlent

Leigubílstjórar út undan í ferðamannastraumnum

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Ástgeir segir marga vera að troða sér inn á markað leigubílstjóra.
Ástgeir segir marga vera að troða sér inn á markað leigubílstjóra. vísir/gva
„Við erum alltaf í stríði við þessa aðila og fáum enga hjálp neins staðar frá. Hvorki frá ráðuneytinu, Samgöngustofu eða lögreglu, því miður,“ segir Ástgeir Þorsteinsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama.

Mikið hefur verið rætt um aukinn fjölda ferðamanna hérlendis undanfarin misseri en leigubílstjórar sem Fréttablaðið hefur rætt við eru sammála um að það skili sér ekki í auknum viðskiptum hjá þeim. Flest hótel og gistiheimili bjóða upp á rútuferðir frá flugvelli og á hótelið.

„Okkur hefur alltaf fundist við fá heldur minna hlutfall úr þessu en við teljum að við ættum að fá. Það eru margir sem eru að troða sér inn á okkar markað. Margir jafnvel ólöglegir og við erum alltaf að berjast í að það verði lagað og hreinsað til. Það gengur illa að fá yfirvöld til þess,“ segir Ástgeir.

Það ber því ekki mikið á því að ferðamenn séu að taka leigubíl á hótelin en þess í stað hafa hópferðabílar verið mjög áberandi í miðbænum undanfarið ýmsum til ama. „Stundum hefur maður það á tilfinningunni, ef við tökum skipin sem dæmi, að fólki sé sagt að það sé betra að taka rútur.

Ástgeir nefnir sem dæmi ferðir út á land þar sem er borgað fyrir hvern og einn en oft geti reynst ódýrara fyrir fólk að fá tilboð í þannig ferð með leigubíl séu margir saman. „Fólk er að borga morð fjár fyrir þessar ferðir út á land, en það er ódýrara í reynd ef fjórir fara saman í svona ferð á leigubíl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×