Erlent

Grískir þingmenn samþykktu samninginn

Skiptar skoðanir eru meðal Grikkja á nýjum neyðaraðstoðarsamningi, en skilyrðum lánardrottna var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr í sumar.
Skiptar skoðanir eru meðal Grikkja á nýjum neyðaraðstoðarsamningi, en skilyrðum lánardrottna var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr í sumar. nordicphotos/getty
Gríska þingið samþykkti í morgun samkomulag sem stjórnvöld náðu við lánardrottna ríkisins á þriðjudag. Um er að ræða þriðja björgunarpakka alþjóðlegra lánastofnana, sem kemur til með að forða Grikkjum frá gjaldþroti og halda þeim inni í evrusamstarfinu.

Samningurinn felur í sér skattahækkanir og niðurskurð í skiptum fyrir 85 milljarða evra lán.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitar þó að taka þátt í björgunaraðgerðinni, nema helstu lánadrottnar gríska ríkisins afskrifi hluta skuldanna.  Hart var deilt um samninginn í alla nótt, áður en gengið var til atkvæðagreiðslu, en þegar upp var staðið samþykkti meirihluti þingmanna samninginn.

222 þingmenn gríska þingsins greiddu atkvæði með samningnum, 64 gegn og ellefu sátu hjá.

Í frétt BBC kemur fram að Alexis Tsipras forsætisráðherra hafi staðið af sér uppreisn innan Syriza-flokksins, en 31 þingmaður flokksins greiddi atkvæði gegn samningnum og ellefu sátu hjá. Þetta þýðir að þriðjungur þingflokksins hafi ekki greitt atkvæði með samningnum.

Samkomulagið verður rætt af fjármálaráðherrum aðildarríkja evrusamstarfsins síðar í dag.


Tengdar fréttir

Samningar næstum í höfn í Grikklandi

Grikkir hafa nærri lokið samningaviðræðum við lánardrottna um nýja 12.600 milljarða króna neyðaraðstoð. Fjármálaráðherra Grikkja segir einungis eftir að semja um smáatriði. Evran styrktist í gær eftir fall júansins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×