Erlent

Þjófur með samviskubit skilaði peningum til skólans

Atli Ísleifsson skrifar
Í bréfinu segist nemandinn vona að forsvarsmenn skólans geti fyrirgefið sér.
Í bréfinu segist nemandinn vona að forsvarsmenn skólans geti fyrirgefið sér. Mynd/Finn Lea/Tastaveden skole
Fyrrum nemandi við grunnskóla í Stafangri var með slæma samvisku eftir að hafa stolið peningum úr kaffistofu skólans á sínum yngri árum. Því ákvað hann að senda bréf til skólans þar sem hann skilar þýfinu, með vöxtum.

Bréfið beið starfsmanna skólans þegar þeir sneru aftur úr sumarfríi fyrr í vikunni. Með bréfinu fylgdu tveir norskir 500 krónu seðlar.

„Hæ. Þegar ég var yngri var ég í Tastaveden-skólanum. Ég og vinur minn stálum peningum frá kaffistofunni þegar við unnum þar. Ég stal 600-800 krónum. Hérna er þúsundkall. Ég er með slæma samvisku núna. Vona að þið getið fyrirgefið mér,“ segir í brétinu.

Skólastjórinn Finn Lea segir í samtali við Aftenbladet að bréfið hafi hreyft við sér og hrósar hann drengnum fyrir að gera málið upp. „Þetta segir ýmislegt um ungmennin í dag.“

Lea segir lítið mál að fyrirgefa drengnum, en hann segist ekki vita hver hafi sent bréfið eða þá að stolið hafi verið úr sjóði kaffistofunnar.

Lea segir að krónurnar sem bárust í pósti, sem samsvara um 16 þúsund íslenskum krónum, verði lagðar í sjóð nemendafélags skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×