Erlent

Arkitektar hefja hópsöfnun fyrir byggingu Minas Tirith

Atli Ísleifsson skrifar
Minas Tirith líkt og hún birtist í kvikmyndum Peter Jackson.
Minas Tirith líkt og hún birtist í kvikmyndum Peter Jackson. Mynd/IndieGogo
Hópur arkitekta hefur hafið hópsöfnun fyrir byggingu borgarvirkisins Minas Tirith úr Hringadróttinssögu í fullri stærð í suðurhluta Englands.

Kostnaður er áætlaður um 400 milljarðar króna og segjast forsvarsmenn hópsins gera sér fulla grein fyrir umfangi verkefnisins. Vonast þeir til að safna peningnum innan sextíu daga.

Einn forsvarsmanna, Jonathan Wilson, segist áætla að um 39 milljarðar króna fari í launakostnað, að greiða þurfi um þrjá milljarða fyrir landið og að efniskostnaður verði um 300 milljarðar. Restin af þeirri upphæð sem myndi safnast færi svo í viðhald og aðra þjónustu.

Wilson segir í samtali við Telegraph að arkitektarnir deila allir ást sinni á sögum J.R.R. Tolkien og að þeir vilji reisa Minas Tirith líkt og hún birtist í kvikmyndum Peter Jackson um Hringadróttinssögu.

Söfnunin hefur farið frekar hægt af stað en um tíu milljónir króna hafa safnast á fyrstu þrettán dögum söfnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×