Erlent

Ár frá falli Sanaa

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöld Sádi-Arabíu hafa verið harðlega gagnrýnd vegna mannfalls borgara í loftárásum í Jemen.
Yfirvöld Sádi-Arabíu hafa verið harðlega gagnrýnd vegna mannfalls borgara í loftárásum í Jemen. Vísir/EPA
Ár er nú liðið frá því að Hútar ráku Abedrabbo Mansour, forseta Jemen, frá höfuðborginni Sanaa. Þeim hefur tekist að halda höfuðborginni og öðrum svæðum í Jemen. Þar áður höfðu Hútar barist gegn al-Qaeda og ættbálka í Norður-Jemen um mánaðaskeið.

Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu nýlega átökin og þögnina um hve mikil áhrif þessi átök hafa haft á almenning í Jemen.

Það var svo í mars sem að Hútar eltu Mansour til borgarinnar Aden og ráku hann úr landi. Þá hófu Sádar loftárásir sínar gegn þeim. Þrátt fyrir miklar loftárásir Sádi-Arabíu, sem vilja koma forsetanum aftur til valda, og hernaðaraðgerðir á jörðu niðri hafa Hútar haldið Sanaa. Hins vegar hafa þeir verið hraktir úr Aden og fjórum öðrum héröðum í suðurhluta Jemen.

Hútar teljast til sjíta múslima og eru þeir studdir af Íran og hermönnum sem eru hliðhollir Ali Abdullah Saleh. Sókn þeirra stöðvaði gerð nýrrar stjórnarskrár Jemen, sem átti að gera ríkið að sambandsríki sex héraða. Hútar, sem segjast hafa verið hafðir á hliðarlínunum lengi, tóku þátt í gerð stjórnarskrárinnar. Þeir eru hins vegar alfarið mótfallnir því að skipta þessu fátæka ríki upp.

Á nokkrum árum áður en átökin hófust höfðu hryðjuverkasamtökin al-Qaeda aukið umsvif sín í Jemen. Hins vegar hefur Íslamska ríkið aukið umsvif sín á kostnað al-Qaeda síðan átökin hófust.

Hútar berjast nú gegn vopnuðum sveitum sem eru þjálfaðar af bandalagi Sáda og fá þeir vopn frá þeim einnig. Þeim sveitum hefur gengið vel gegn Hútum og hafa verið studdar með loftárásum og nálgast þær Sanaa óðfluga.

Minnst tvö þúsund almennir borgarar hafa látið lífið í átökunum og minnst fjögur þúsund hafa særst, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Al-Jazeera segir hins vegar að minnst 4.500 hafi látið lífið. Átök í höfuðborginni munu líklega leiða til frekari þjáninga almennra borgara og því segir Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna að nauðsynlegt sé að finna lausn á deilunni.

Átökin hafa orðið til þess að gífurlegar skemmdir hafa verið unnar á sjúkrahúsum og öðrum stofnunum þessa fátæka lands. Þau sjúkrahús sem enn eru starfrækt etja kappi við birgðaleysi og skort á eldsneyti til að halda vélum og tækjum gangandi. Jemen flytur inn um 70 prósent af því eldsneyti sem notað er í landinu og öll þau lyf sem notuð eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×