Körfubolti

KKÍ hætti við að halda Lengjubikarsúrslitin á Króknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Tindastóls voru þegar búnir að missa af möguleikanum á því að vinna titil á heimavelli sínum í Síkinu.
Stuðningsmenn Tindastóls voru þegar búnir að missa af möguleikanum á því að vinna titil á heimavelli sínum í Síkinu. Vísir/Stefán
Úrslitaleikir Lengjubikarsins í körfubolta fara ekki fram á Sauðárkróki eins og áður hafði verið tilkynnt. KKÍ hefur fært keppni hinna fjögurra fræknu á suðvesturhornið þaðan sem öll átta liðin koma.

KKÍ sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem fram kom að sambandið hefur fundið nýjan leikstað undanúrslita og úrslita Lengjubikarsins.

Karlalið Tindastóls datt út úr átta liða úrslitunum í gær og Tindastóll er ekki með kvennalið á þessu tímabili. Stólarnir fengu því ekki langþráða úrslitahelgi á heimavelli hvort sem er.

Undanúrslit kvenna fara fram í TM-höllinni í Keflavík á fimmtudagskvöldið og undanúrslit karla og úrslitaleikirnir verða í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi, undanúrslitin á föstudagskvöldið og úrslitin á laugardaginn.

„Þegar ljóst var að Tindastóll ætti ekki lið í úrslitunum né annað lið af svæðinu töldu forráðamenn Tindastóls og KKÍ það best fyrir körfuknattleikinn í landinu að úrslitin fari fram á suðvesturhorni landsins þar sem að öll liðin koma þaðan," segir í fréttatilkynningunni.

Liðin átta sem komust í undanúrslitin hefðu annars þurft að ferðast samanlagt rúma 2500 kílómetra leið til að spila þessa undanúrslitaleiki og þá erum við bara að tala um aðra leiðin.



Dagskrá úrslitahelgi Lengjubikarsins 2015:

Fimmtudagur 1. október TM-höllin Keflavík, Undanúrslit kvenna

Kl. 18.15 Keflavík-Valur

Kl. 20.30 Haukar-Grindavík

Föstudagur 2. október Iða Selfossi, Undanúrslit karla

Kl. 18.15 FSu-Stjarnan

Kl. 20.30 Þór Þ.-Haukar

Laugardagur 3. október Iða Selfossi

Kl. 14.00 Úrslitaleikur kvenna

Kl. 16.30 Úrslitaleikur karla




Fleiri fréttir

Sjá meira


×