Íslamska ríkið hefur birt myndband þar sem börn taka þátt í aftöku átta manna. Átta drengir vopnaðir árásarrifflum leiða fangana til aftöku og ungur drengur dreifir hnífum til böðlanna áður en mennirnir eru myrtir.
Mennirnir átta eru myrtir á mjög svo ógeðfelldan hátt, en þeir eru sagðir vera sjítar frá Hama héraði í Sýrlandi.
Á vef AP fréttaveitunnar segir að vígamaður kalli mennina „óhreina heiðingja“. Þá sagði hann að árásir gegn ISIS gerðu samtökin einungis öflugari.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ISIS notar börn í álíka myndböndum og jafnvel hafa börn verið látin skjóta fanga til bana. Þá hafa samtökin tekið fjölda fólks af lífi frá því að þau hertóku stóra hluta Sýrlands og Írak í fyrra.
