Lífið

Fyrstu „skinkubúð” Kringlunnar lokað

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Einni fyrstu skvísubúð landsins var lokað í byrjun mánaðarins.
Einni fyrstu skvísubúð landsins var lokað í byrjun mánaðarins. Vísir
Það má segja að tímamót hafi átt sér stað í upphafi mánaðarins þegar verslunin Kiss hætti rekstri í Kringlunni eftir að hafa haldið þar úti verslun frá því í kringum 1990.

„Þetta eru stór tímamót, við erum náttúrulega búnar að vera í Kringlunni nánast frá upphafi. Byrjuðum í raun og veru í rokkinu og breyttum svo yfir í skvísubúðina, bara svona í takt við tímann,“ segir Nadia Tamimi, sem rekið hefur verslunina um árabil ásamt móður sinni.

Eftir að lýsingarorðið skinka komst í almennt orðfæri hefur Kiss stundum verið tengd slíkum tískustraumum en Nadia segist þó engar áhyggjur hafa af því að fokið sé í flest skjól fyrir skinkur á Íslandi, úrvalið sé fjölbreytt.

„Nei, það eru svo margir komnir í sama pakka og við, þannig að ég held að það lifi alltaf, engin spurning. En við erum örugglega svona fyrsta skinkubúðin ef maður á að kalla þetta það,“ segir hún og hlær innilega.

Eldheitir aðdáendur verslunarinnar þurfa þó ekki að örvænta því Kiss mun opna netverslun í byrjun mars. Nadia segir að það hafi svo sannarlega verið skrítið að skella í lás í síðasta sinn og fastakúnnarnir hafi margir hverjir verið undrandi. „Fastakúnnunum fannst þetta mjög furðulegt, hvernig verður Kringlan án Kiss?“ En lokunina segir hún einfaldlega vera svar við breyttum verslunaraðstæðum. „Þetta er rosalega mikið á netinu, við seljum svo mikið þar og þá erum við líka aðeins frjálsari,“ segir Nadia um þær mæðgur.

„Það var rosa skrítin tilfinning en samt líka léttir. Maður gekk alveg í gegnum pínu sorgarferli með þetta en við erum voða spenntar fyrir nýjum tímum með Kiss og ætlum jafnvel að breikka vöruúrvalið, húsnæðið var eiginlega sprungið utan af okkur,“ segir Nadia en þær stefna á að taka herra- og barnaföt í sölu og bæta jafnvel við sig í stærri stærðum.

„Þetta er náttúrulega lítið samfélag þarna, ég fór einmitt í Kringluna um helgina og mér fannst voða furðulegt að hafa engum skyldum að gegna þarna,“ segir Nadia og hlær þegar hún er spurð að því hvort það verði ekki skrítið að standa ekki vaktina í verslunarmiðstöðinni á hverjum degi. „Ég er búin að vera þarna síðan ég var tíu ára, ég ólst bara upp í Kringlunni.“

Kristín Lea var að vinna í Kiss.Vísir/Stefán
Svolítið af launum fóru í föt

Kristín Lea Sigríðardóttir, leikkona starfaði í versluninni Kiss á árum áður og ber versluninni góða söguna. „Það fór oft svolítið af laununum í föt,“ segir hún, hlær og bætir við að verslunin hafi verið hluti af menningunni í Kringlunni enda verið þar í rúm fimmtán ár.



Hún segir alltaf hafa verið hægt að leita í búðina þegar eitthvað stóð til enda bauð verslunin upp á gott úrval af fatnaði og alltaf vel tekið á móti henni.

„Þegar maður var að fara eitthvað eða svona þá hefur maður getað leitað til þeirra við einhver tilefni og svona. Líka bara alltaf næs að kíkja þarna,“ segir Kristín Lea

Einkenni Kiss var fjölbreytt úrval af skartgripum.
Fyrsta skvísubúðin

„Það er leiðilegt að sjá þessa verslun hverfa, hún er búin að vera rótgróin í mörg ár,“ segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrirsæta og athafnakona um verslunina.

„Þetta var svona fyrsta skvísubúðina á Íslandi og núna er náttúrulega samkeppnin orðin talsvert harðari. Kiss hefur alltaf haldið sínu einkenni með öllu sínu skarti, fyrir fegurðardrottningar og glamorous kvöld,“ segir Ásdís og bætir að lokum við:

„Þegar ég var yngri þá var þetta aðal málið.“

Birgitta er mikið glingurdýr.Vísir/AntonBrink
Glingrið kom sér vel

„Þær mæðgur studdu mig alveg rosalega vel,“ segir Birgitta Haukdal, söngkona sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Írafár.

„Ég þurfti næstum því nýtt dress á hverjum degi og þá var rosalega dýrmætt fyrir mig að hafa þær,“ segir Birgitta og segir þær mæðgur hafa verið með puttann á púlsinum hvað varðar tískustrauma. 

Birgitta er ljón í stjörnumerki og mikið glingurdýr að eigin sögn.

„Glingur á mjög vel við ljón og glingrið sem þær fluttu inn kom sér mjög vel á honum ýmsu tónleikum og böllum þegar maður þurfti að skreyta sig,“ segir Birgitta glöð í bragði






Fleiri fréttir

Sjá meira


×