Bashar al-Assad Sýrlandsforseti á að svara til saka fyrir hlutverk sitt í átökunum í Sýrlandi að mati David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Cameron er þó opinn fyrir möguleikanum á því að Assad sitji á valdastól á meðan komið er á nýrri ríkisstjórn.
„Þeir sem brjóta alþjóðalög þurfa að taka afleiðingunum,“ sagði Cameron við viðstadda fjölmiðlamenn. „Hann hefur látið slátra landsmönnum sínum, hann er einn af þeim sem ber ábyrgð á átökunum sem skapað hafa flóttamannavandann og ISIS hefur óspart nýtt sér framgöngu hans til þess að fá til sín nýja meðlimi. Assad getur ekki verið hluti af langtímaframtíð Sýrlands.“
David Cameron lét hafa þetta á eftir sér er hann ferðaðist til New York þar sem hann mun taka þátt í Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þar mun hann ásamt öðrum leiðtogum ríkja heimsins ræða mögulegar leiðir til þess að binda endi á átökin í Sýrlandi sem staðið hafa yfir í tæp fimm ár.
Vesturveldin hafa hingað til staðið fast á því að Assad, sem nýtur stuðnings Rússlands, þurfi að afsala sér völdum svo lægja megi ófriðaröldur í Sýrlandi en ummæli Cameron um að Assad geti setið áfram á forsetastóli til skammstíma gefa mögulega til kynna að afstaða Bretlands sé að mýkjast.
Cameron vill að Assad svari til saka

Tengdar fréttir

Stjórnarherinn nýtir vopn frá Rússlandi
Minnst 38 vígamenn Íslamska ríkisins voru felldir í loftárásum í Sýrlandi í nótt.

Obama og Pútín funda í fyrsta sinn í tæpt ár
Tvennum sögum fer af því hvert aðalefni fundarins er.

Frakkar hefja loftárásir í Sýrlandi
„Við munum bregðast við í hvert sinn sem okkar þjóðaröryggi er að veði,“ segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Tilbúnir til viðræðna við Rússland
Bandaríkin vilja að Rússar einbeiti sér að því að berjast gegn Íslamska ríkinu.