Fótbolti

Heiðursgráða tekin af hinum „siðferðilega og fagmannlega“ Blatter

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vinum fer að fækka hjá Sepp Blatter.
Vinum fer að fækka hjá Sepp Blatter. vísir/getty
Sepp Blatter, fyrrverandi forseti FIFA sem dæmdur var í átta ára bann frá afskiptum af fótbolta í gær, er að komast að því hvernig er að vera dæmdur maður.

Hann má ekki koma nálægt fótbolta næstu átta árin sem er meira og minna dauðadómur fyrir þennan 79 ára gamla Svisslending og nú eru menn byrjaðir að snúast gegn honum.

De Monfort-háskólinn í Leicester á Englandi hefur afturkallað heiðursgráðu sem hann var sæmdur árið 2005 fyrir störf sín í þágu lista og mannvísinda.

Á skjali sem fylgdi með gráðunni stóðu orð sem eru vægast sagt vandræðaleg í dag þegar horft er til nýjustu tíðinda af spillingarmálum Blatters og FIFA.

„Hann er hreinn og beinn, hugsjónamaður, siðferðilegur og fyrst og fremst fagmannlegur,“ sagði í umsögn um Blatter þegar hann tók við gráðunni.

Forráðamenn De Monfort-skólans sögðu í júní að þeir ætluðu að fylgjast með gangi mála hjá Blatter og bíða eftir úrskurði aganefndar FIFA áður en ákvörðun væri tekin.

Þegar Blatter var svo dæmdur í bann í gærmorgun var heiðursgráðan tekin af honum um leið.


Tengdar fréttir

Sepp Blatter og Michel Platini dæmdir í átta ára bann

Sepp Blatter, forseti FIFA, og Michel Platini, forseti UEFA, hafa báðir verið dæmdir í átta ára bann frá knattspyrnu en siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins hefur lokið rannsókn á mútumáli tengdum þeim báðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×