Skoðun

Stjórnarmeirihlutinn felldi kjarabætur aldraðra

Björgvin Guðmundsson skrifar
Alþingi felldi sl. þriðjudag, 8. desember, tillögu minnihlutans á þingi um að aldraðir og öryrkjar fengju kjarabætur frá 1. maí sl. eins og launþegar hafa fengið. Stjórnarmeirihlutinn snerist gegn þessari sjálfsögðu tillögu og tillagan var felld. Ekki einn einasti stjórnarþingmaður greiddi atkvæði með öldruðum og öryrkjum í þessu máli, ekki einu sinni þeir stjórnarþingmenn, sem talað hafa vel um kjarakröfur lífeyrisþega.

Alþingi er kjararáð lífeyrisþega

Helgi Hjörvar, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu við atkvæðagreiðslu um tillöguna, að kjararáð hefði nýlega ákveðið, að ráðherrar, þingmenn og embættismenn skyldu fá verulegar kjarabætur afturvirkt til 1. mars sl. Alþingi er kjararáð eldri borgara og öryrkja, sagði Helgi Hjörvar. Skoraði hann síðan á kjararáð lífeyrisþega að samþykkja, að aldraðir og öryrkjar fengju sambærilegar kjarabætur og launamenn hefðu fengið og frá sama tíma, 1. maí. Fram kom, að þessar kjarabætur lífeyrisþega kosta ekki nema 6,6 milljarða en afgangur er á fjárlögum upp á 20 milljarða, sem sumir spá að verði 30 milljarðar. Það vantar því ekki peninga. Það vantar viljann hjá stjórninni.

BB: Stjórnin gert mikið fyrir lífeyrisþega!

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að ríkisstjórnin hefði gert mjög mikið fyrir lífeyrisþega. Hún hefði leiðrétt frítekjumark vegna skerðinga tryggingabóta aldraðra hjá TR. Það gagnast þeim sem eru á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hefði einnig leiðrétt grunnlífeyri vegna þess að greiðslur úr lífeyrissjóði skertu hann. Það gagnast þeim, sem hafa góðan lífeyrissjóð. Annað gerði stjórnin ekki að eigin frumkvæði eftir að hún tók við völdum. En síðan rann skerðing tekjutryggingar úr gildi af sjálfu sér, þar eð ákvæðið var tímabundið.

Þetta er í fyrsta sinn, sem það kemur grímulaust fram á Alþingi að ríkisstjórnin ætli að svíkja lífeyrisþega um afturvirkar kjarabætur eins og nær allir launamenn í landinu hafa fengið. Það er til skammar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×