Lífið

Aldrei planið að taka upp myndband á Íslandi: „Þetta er bara Justin“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Justin Bieber við Seljalandsfoss.
Justin Bieber við Seljalandsfoss. vísir
„Það er það sem er svo fallegt við myndbandið; þetta er bara Justin. Þetta er ekki hann að leika. Hann er bara hann sjálfur. Hann er hamingjusamur. Hann er að lifa lífinu.“

Þetta segir Rory Kramer, leikstjóri myndbandsins við lagið I‘ll Show You, með kanadíska söngvaranum Justin Bieber. Kramer er í viðtali við miðilinn Marriott Traveler en í því rekur hann hvernig það kom til að Bieber kom hingað til lands og tók upp myndband við lagið.

Bieber var að ljúka við gerð plötunnar Purpose á grísku eyjunni Santorini þegar Kramer spurði hann hvaða stað hann hefði alltaf langað að heimsækja en ekki haft tækifæri til þess enn.

Staðurinn var Ísland en Kramer segir að hann hafi einnig alltaf langað til að koma hingað. Hann bauð síðan ljósmyndaranum Chris Burkard að hitta þá hér sem hafði komið til Íslands áður.

Í viðtalinu segir Kramer að það hafi aldrei verið planið að taka upp myndband á Íslandi. Hann hafi bara verið að fanga augnablik ferðalags með vinum sínum og því sé myndbandið nokkuð frábrugðið öðrum myndböndum Bieber.

„Þú sérð varla framan í hann í myndbandinu,“ segir Kramer. „Þú verður hann og finnur það sem hann finnur í gegnum textann í laginu.“

Þannig sé eitt augnablik í myndbandinu þar sem Bieber er eitt sólskinsbros þar sem hann veltir sér niður mosagróna brekku á Suðurlandi. Þar bregði fyrir sjaldgæfri mynd af stórstjörnu sem er ekki með áhyggjur af næstu tónleikum, næsta viðtali eða papparössum.

Eins og flestum er kunnugt er von á Justin Bieber aftur til landsins á næsta ári en hann heldur tónleika í Kórnum þann 9. september. Uppselt varð á tónleikana á hálftíma í gær en mun meiri eftirspurn var eftir miðunum en tónleikahaldarar bjuggust við.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×