Lífið

Stína er orðin tíu ára

Magnús Guðmundsson skrifar
Kormákur Bragason er verkstjóri í ritstjórn Stínu en hann hefur komið að útgáfunni frá upphafi.
Kormákur Bragason er verkstjóri í ritstjórn Stínu en hann hefur komið að útgáfunni frá upphafi.
Stína er merkilegt tímarit. Það kemur út tvisvar á ári og er án undantekninga stútfullt af áhugaverðu efni, umfjöllunum, sögum, ljóðum og fjölmörgu fleiru sem unnendur bókmennta og lista ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Ritstjórn Stínu skipa nú þau Guðbergur Bergsson, Kormákur Bragason, Kristín Ómarsdóttir, Hallgrímur Helgason og Kári Tulinius. Kormákur fer með verkstjórn innan ritstjórnarinnar og segir hann að það sé nú ekki breyting á Stínu á afmælisárinu.

„Við erum þó að vinna í ákveðnum hlutum eins og að uppfæra vefsíðuna þar sem eru breytingar í undirbúningi. Þar er til að mynda ætlunin að bæta efni á erlendum tungumálum enda eru sífellt fleiri höfundar sem vilja skrifa á öðru tungumáli en íslensku, þá sérstaklega ensku. Sumir þessara höfunda eru íslenskir en það er mjög merkjanlegt hversu margir þeirra eru að leita út fyrir landsteinana. Það virðist nú ganga svona misvel, mjög vel hjá sumum en miður hjá öðrum, eins og gengur og gerist.“

Kormákur segir að áskrifendum að Stínu hafi heldur fjölgað á síðustu árum og hafi ritstjórnin sett sér það markmið að þeir fylli fimmta hundraðið á árinu. „Við erum með áskrifendur sem hafa verið með okkur frá upphafi og svo hefur orðið aukning á áskrifendum erlendis, bæði Íslendingum og erlendum þýðendum, ásamt fleiri íslenskumælandi einstaklingum sem vilja fylgjast vel með því sem er á döfinni.“

„Það sem gleður okkur þó hvað mest er hversu margir vilja skrifa í Stínu. Fyrra eintak ársins er nýkomið út og við erum þegar búin að fylla seinna eintakið af efni. 

Við höfum frá upphafi lagt þá línu að vera opin fyrir ungum og nýjum höfundum sem eru að leitast við að koma sér á framfæri og það er mikilvægur þáttur í því sem við erum að gera. 

Svo erum við ekki eingöngu með bókmenntir, heldur er einnig fjallað um myndlist og leikhús reglulega svo dæmi sé tekið. Það er því af nógu að taka fyrir þá sem vilja fylgjast vel með í heimi bókmennta og lista með því að skella sér á áskrift að Stínu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×