Enski boltinn

De Gea verður ekki seldur í janúar

Anton Ingi Leifsson skrifar
David de Gea verður áfram í herbúðum United út samninginn sinn ef marka má fréttir dagsins.
David de Gea verður áfram í herbúðum United út samninginn sinn ef marka má fréttir dagsins. vísir/getty
Manchester United hefur sagt David de Gea, markverði liðsins, að hann sé ekki á leið til Real Madrid í janúar-glugganum, en mikið fíaskó var í kringum de Gea á lokadegi félagsskiptagluggans í sumar.

Spænski markvörðurinn vonaðist eftir að fara frá United í sumar og virtist hann vera á leið til Real Madrid á lokadegi gluggans í síðustu viku. Það gekk hins vegar ekki í gegn því pappírar skiluðu sér ekki og de Gea því áfram leikmaður United.

Sjá meira: De Gea í leikmannahópi United í Meistaradeildinni

United og Real hafa síðan þá sakað hvort annað um að sökin sé ekki hjá sér og benda á hitt liðið. United hefur nú sagt de Gea að þeir muni ekki selja hann þegar janúarglugginn opnar og verði hann hjá félaginu út samninginn.

De Gea á níu mánuði eftir af samningi sínum við Real Madrid, en hann hefur ekki spilað leik á þessari leiktíð. Van Gaal, stjóri Manchester United, hefur látið hann sitja uppi í stúku á meðan Sergio Romero, argentínski markvörðurinn, hefur staðið vaktina í marki þeirra rauðklæddu frá Manchester.

Sjá meira: Manchester United gefur frá sér tilkynningu: Sökin liggur hjá Real Madrid

Spænski markvörðurinn sat allan tímann á bekknum þegar Spánn vann 2-0 sigur á Slóvakíu í gær, en hann óttast að samband hans við Van Gaal verði til þess að hann muni ekki verða fyrsti markvörður Spánverja á Evrópumótinu sem fram fer í Frakklandi næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×