AGF vann góðan 3-0 sigur á lærisveinum Ólafs Kristjánssonar í Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Sigurinn var kærkominn fyrir AGF sem hafði tapað þremur síðustu leikjum sínum fyrir leikinn í dag. Með sigrinum komst liðið upp í 6. sæti deildarinnar en Nordsjælland féll niður í það áttunda með tapinu.
Theodór Elmar Bjarnason var ekki í leikmannahópi AGF sem komst yfir með marki Kim Aabech á 23. mínútu. Mate Vatsadze bætti öðru marki við á lokamínútu fyrri hálfleik og Aabech negldi svo síðasta naglann í kistu Nordsjælland þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark AGF á lokamínútu leiksins.
Adam Örn Arnarson og Guðmundur Þórarinsson voru í byrjunarliði Nordsjælland. Adam var tekinn af velli á 68. mínútu og Guðmundur 11 mínútum síðar.
